Nú höfum við kvatt hóp barna frá austurströnd Grænlands sem kom til okkar í Kópavogi til þess að læra sund. Sundkennslan fór fram tvisvar á dag í Salalaug en þess á milli fóru börnin og hittu jafnaldra sína í 7. og 8. bekk í Hörðuvallaskóla og Kóraskóla og einn daginn heimsótti hópurinn Menningarhús Kópavogsbæjar þar sem vel var tekið á móti þeim. Alls voru á þriðja tug barna sem heimsóttu Kópavog í ár og því var kátt á hjalla meðan á heimsókninni stóð.
Eftir að sundi lauk síðdegis var dagskrá á vegum Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands, og var bryddað upp á ýmsu skemmtilegu, til að mynda fóru börnin Gullna hringinn, þau heimsóttu Húsdýra- og fjölskyldugarðinn og fóru á hestbak svo fátt eitt sé nefnt. Hefð er fyrir því að heimsækja Forseta Íslands á Bessastaði og tók Halla Tómasdóttir fallega á móti börnunum, kennurum og skipuleggjendum ferðarinnar.
Kópavogsbær hefur í samstarfi við Kalak, vinafélag Grænlands og Íslands, staðið fyrir sundkennslu fyrir grænlensk börn frá austurströnd Grænlands síðan árið 2006 og er mikil ánægja með verkefnið.
„Verkefnið er ótrúlega skemmtilegt og gefandi fyrir alla sem að því standa. Þetta er eitt af mínum uppáhaldsverkefnum og svo gaman að sjá hvað börnin eru ánægð með upplifunina og einnig hvað þau ná góðum tökum á sundinu. Einnig er samstarfið við Kalak alveg til fyrirmyndar.“ segir Hekla Hannibalsdóttir, verkefnastjóri hjá Kópavogsbæ sem kemur að skipulagningu heimsóknarinnar fyrir hönd bæjarins. Jysk hefur verið rausnarlegt og gefið börnunum 2 umganga af handklæðum undanfarin ár og í ár gaf Aquasport öllum börnunum sundfatnað.