Við höfum að öllu að vinna og engu að tapa – segir Halldór Árnason þjálfari Breiðabliks fyrir stórleikinn

Toppbaráttan í Bestu-deild karla hefur sjálfsagt sjaldan verið jafn spennandi en núna í ár, en á sunnudaginn
leika Breiðablik og Víkingur hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Leikurinn fer fram í Víkinni og hefst kl. 18:30, en eftir 26 leiki eru bæði lið með 59 stig, hafa sigrað 18 leiki, gert 5 jafntefli og ekki tapað nema
3 leikjum í allt sumar.

Bæði liðin unnu góða sigra um sl. helgi, Víkingur vann ÍA 4-3 í skrautlegum leik, en Breiðablik vann Stjörnuna 2-1 á Kópavogsvelli undir mikilli pressu því Blikar vissu fyrir leik að þeir máttu ekki tapa leiknum ef þeir ætluðu að eiga möguleika á Íslandsmeistaratitlinum nk. sunnudag.

Eitthvað sem alla knattspyrnumenn dreymir um

Kópavogspósturinn heyrið í Halldóri Árnasyni þjálfara Breiðabliks og vatt sér beint í aðalatriðið; það er stórleikur í Víkinni nk. sunnudag, hvernig líst þér á að vera að fara í hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn? ,,Þetta er auðvitað ein af ástæðum fyrir því að við leggjum á okkur alla þessu vinnu, til að fá að taka þátt í svona leikjum. Að spila úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn er eitthvað sem alla knattsyrnumenn dreymir um en langfæstir fá nokkurn tímann að upplifa. Tilhlökkunin er mikil og þetta verður stór stund fyrir liðið, félagið og stuðningsmennina,” segir Halldór.

Pressan á leikmenn liðsins var gríðarleg

Spennustigið verður sjálfsagt ansi hátt fyrir og í leiknum sjálfum nk. sunnudag enda mikið undir, en það var líka mikið undir á móti Stjörnunni sl. sunnudag vitandi að þið mættuð alls ekki tapa leiknum eftir að Víkingur hafði sigrað ÍA fyrr þann dag – var sá leikur kannski ágætis prófsteinn eða lærdómur fyrir leikinn á sunnudaginn? ,,Nei, í raun ekki. Pressan á leikmönnum fyrir leikinn gegn Stjörnunni var gríðarleg og þeir minntir á það daglega í marga daga í aðdragandi leiksins. Þrátt fyrir að við höfum innan hópsins einblínt á að þetta hefur í langan tíma verið í okkar höndum og reynt að útiloka utanaðkomandi áhrif, þá eru menn auðvitað bara mannlegir og vissu vel hvað var í húfi. Ég hugsa að það sé ansi langt síðan að íslenskt félagslið spilaði leik með jafn sterka utanaðkomandi pressu. Þjóðin fylgdist með og beið eftir því hvort að hinn margumræddi úrslitaleikur yrði að veruleika,” segir hann og heldur áfram: ,,Hinsvegar verður allt annað uppi á teningnum á sunnudag. Við höfum að öllu að vinna og engu að tapa. Þannig munum við mæta til leiks, fullir tilhlökkunar og lausir við alla pressu og alla hlekki.”

Höfum klárlega verið besta lið deildarinnar í núna aðverða 4 mánuði

Höskuldur fyrirliði ykkar sagði eftir leikinn sl. sunnudag að þið væruð heitasti liðið í dag – tekurðu undir það, er Breiðablik á góðum stað? ,,Það þarf svosem bara mjög einfalda stærðfræði til að sjá það að síðan við töpum gegn FH í júní þá erum við það lið sem hefur safnað flestum stigum í deildinni og höfum því klárlega verið besta lið deildarinnar í núna að verða 4 mánuði.”

En hvernig verða dagarnir hjá ykkur fyrir lokaleikinn – bara hefðbundinn æfingavika og vejulegur undirbúningur? ,,Að stærstu leyti verður þetta hefðbundin æfingavika með æfingum, fundum og und- irbúningi fyrir komandi andstæðing. Við þurfum samt að passa uppá að njóta þess vel að vera í þessari stöðu sem við erum í. Njóta hvers einasta dags og taka utan um þetta tækifæri sem sem höfum unnið okkur inn. Losa okkar við alla hlekki og leyfa eftirvæntingu og tilhlökkun að vera ráðandi tilfinningar,” segir hann.

Eingöngu dagsformið og hugafarið sem mun skipta máli á sunnudaginn

Talandi um undirbúning fyrir leikinn, hann verður töluvert ólíkur hjá liðunum, þið eruð með allan fókusinn á úrslitaleiknum á meðan Víkingar leika í Sambandsdeildinni á fimmtudaginn áður en kemur að stórleiknum – hvort telur þú vera ákjósanlegra – ættuð þið að hagnast eitthvað á lengri hvíld og undirbúningi fyrir þenna leik? ,,Ég hugsa að það skipti engu máli. Það verður eingöngu dagsformið og hugarfarið á sunnudag sem skiptir máli. Það er engin hvíld eða álag sem hefur áhrif þegar svona mikið er undir.”

Höfum sýnt það ítrekað í sumar að andlegur styrkur þessa liðs er einstakur

Talandi um hátt spennustig hér áðan, verður þá ekki erfitt að stilla menn rétt af fyrir þennan leik, það er svo ofboðs- lega mikið undir – það er eitt að segja hluti og ætla að gera þá en svo er allt annað mál að beisla undirmeðvitundina – telurðu ykkur vera nógu sterka andlega til þess? ,,Ég tel okkur hafa sýnt það ítrekað í sumar að andlegur styrkur þessa liðs er einstakur og eitthvað sem klárlega mun hjálpa okkur að sækja sigur á sunnudag.”

Byrjunarlið Breiðabliks gegn Stjörnunni sl. sunnudag. Spurning hvort þetta sé liðið sem byrjar stórleikinn á sunnudaginn.

Við höfum verið gríðarlega sterkir á útivelli og tapað fáum stigum

Nú þurfið þið að sækja til sigurs í þessum leik, ætlið þið að leika stífan sóknarleik og pressa hátt upp á völl og hvernig reiknar þú með að Víkingar mæti ykkur vitandi að þeim dugi jafntefli? ,,Við munum spila okkar leik og þeir sinn leik. Við höfum verið gríðarlega sterkir á útivelli og tapað fáum stigum. Sigur er það eina sem kemur til greina í okkar huga. Það er hinsvegar stórhættulegt að ætla að spila uppá jafntefli og ég hef ekki nokkra trú á að Víkingar geri neitt annað en þeir hafa gert í allt sumar.”

Hugsar ekki um yfirborðstölfræði Þegar Kópavogspósturinn spyr Halldór um leiki liðanna í Víkinni síðustu tíu ár, sigra og töp, skoruð og fengin mörk á sig, en að meðaltali hafa verið skoruð 4,8 mörk í síðustu tíu leikjum þá segir hann að öll svona yfirborðstölfræði sé eitthvað sem hann hugsi ekki um. ,,Við notum allt aðra tölfræði og svo aðrar greiningar til að undirbúa okkur fyrir leikinn.”

Stuðningur okkar fólks getur gert gæfumuninn í að sigla titlinum í hús

Úrslitaleikurinn verður í Víkinni, á heimavelli Víkings og þeir verða sjálfsagt eitthvað fjölmennari í stúkunni ef það verður takmarkaður sætafjöldi í boði. Hefur það áhrif að leika ekki á Kópavogsvelli og geta hleypt öllum ykkar stuðningsmönnum? ,,Ég geri bara ráð fyrir að miðunum verði skipt milli liðana á sanngjarnan hátt og stuðningsmenn Breiðabliks muni fjölmenna á leikinn. Stuðningur okkar fólks getur gert gæfumuninn í að sigla titlinum í hús,” segir Halldór.

Við verðum klárir við upphafsspyrnu

Nú hefur leikurinn verið færður og er leikinn á sunnudagskvöldið kl. 18:30. Ertu sáttur með þá ákvörðun að hann hafi verið færðu um dag, erfitt fyrir leikmenn að bíða alla helgina og kannski aðallega allan sunnudaginn og hvernig verður sá dagur hjá ykkur? ,,Það varð ljóst þegar Víkingur tryggði sæti sitt í Sambandsdeildinni að þessi leikur yrði á sunnudegi, þannig að það hefur legið fyrir í núna tvo mánuði. Leiktímanum var hinsvegar breytt, leikurinn færður frá kl. 14 til 18:30. Ég átta mig ekki á því af hverju það var og hef í raun ekki skoðun á því. Við verðum klárir við upphafsspyrnu,” segir hann og heldur áfram:.

Hittumst í Víkinni 90 mínútum fyrir leik

,,Það verður bara hefðbundinn undirbúningur hjá okkur. Æfingar og fundir í vikunni og svo hittumst við í Víkinni 90 mínútum fyrir leik,” segir Halldór að lokum aðspurður hvernig leikdagurinn verði.

Forsíðumynd: Halldór Árnason þjálfari Breiðabliks og Eyjólfur Héðinsson aðstoðarþjálfari

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar