Við erum með þetta í okkar höndum – segir Leifur Andri Leifsson fyrirliði HK

Úrslitakeppni neðri hlutar í Bestu-deild karla hófst á sunnudaginn með tveimur leikjum, en HK fer norður og á leik við KA á miðvikudaginn. Kópavogspósturinn heyrði hljóðið í fyrirliðanum, Leifi Andra Leifssyni hjá HK og spurði hann nánar um úrslitakeppnina sem er framundan, en það er í höndum HK að halda sér í deild þeirra bestu að ári. Þeir ráða því örlögum sínum sjálfir.

Hvernig líst Leif Andra Leifssyni fyrirliða HK á komandi úrslitakeppni og stöðuna á HK-liðinu í dag? ,,Mér líst hrikalega vel á komandi úrslitakeppni. Við erum með þetta í okkar höndum og þurfum að halda áfram að bæta okkur í ákveðnum þáttum. Við erum að fá menn inn og vonandi náum við halda sem flestum heilum annars erum við með þokkalega breiðan hóp og fullt af mönnum sem eru tilbúnir að stíga inn ef þess þarf enda þurfum að gera þetta sem ein heild,“ segir Leifur Andri.

Getum unnið alla og tapað fyrir öllum

Hvernig er síðan stemmningin og sjálfstraustið í liðinu fyrir úrslitakeppnina? ,,Sjálfstraustið hjá okkur er gott. Við höfum sýnt það að við getum unnið alla og tapað fyrir öllum en við þurfum að fá meiri stöðugleika í heildar frammistöður.“

Þurfum að vernda markið okkar betur

Ef þú lítur yfir sumarið ertu þá sáttur við spilamennskuna ykkar fram til þessa eða hefðuð þið getað gert betur? ,,Við erum ekki sáttir, en erum réttu megin við línuna eins og staðan er í dag. Auðvitað vildum við vera með fleiri stig, en við höfum verið svolítið óheppnir með meðsli. Augljósir vankantar í þessu hjá okkur er varnarleikurinn, en við þurfum allir sem lið að vernda markið okkar betur.“

Botnbaráttan er gríðarlega spennandi, þið enduðu í 10. sæti, en það eru fjögur lið sem er þarna í einum hnapp að berjast við að halda sér uppi – þetta verður sjálfsagt rafmögnuð spenna alveg fram á lokaumferð –  en að hverju þurfið þið fyrst og fremst að huga að – hvað þarf að vera í lagi hjá ykkur svo þið getið náð úrslitum? ,,Eins og ég sagði áðan þá er þetta algjörlega í okkar höndum, en við verðum að bæta okkur varnarlega, fækka mörkum á okkur og verjast betur sem ein heild og ef við náum því þá erum við í góðum málum.“

En þið eru sjálfsagt með hugann fyrst og fremst við fyrsta leikinn sem verður á miðvikudaginn á móti KA á Akureyri. Þú lofar líklega alvöru leik, en þið tókuð stig með ykkur heim er þið mættuð þeim á Akureryi í Bestu-deildinni í upphafi sumars? ,,Það er ekki auðvelt að fara á Akureyri á þessum tíma árs, en við förum í alla leiki til að vinna þá og það verðu enginn undantekning á miðvikudaginn. Það þarf að nálgast alla þessa leiki í úrslitakeppninni sem staka úrslitaleiki, öll stig skipta gríðarlega miklu máli á þessum loka kafla og vonandi náum við upp heildsteyptum leik og förum heim með stigin þrjú.“

Tökum einn leik í einu

Og HK menn eru sjálfsagt allir upp til hópa vel stemmdir fyrir úrslitakeppninni og það hlýtur að vera góð tilfinninga að hafa þetta í sínum höndum? ,,Það er alltaf góð stemning hjá okkur. Við þurfum að taka einn leik í einu og safna eins mörgum stigum og við getum. Við megum alls ekki missa þetta úr okkar höndum,“ segir fyrirlið HK að lokum, en fyrstu tveir leikir HK eru útileikir á móti nýkrýndum bikarmeisturum KA á miðvikudaginn og svo við Vestra sunnudaginn 29. september. Svo er heimaleikur við Fylki sunnudaginn 6. október kl. 17.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar