Við eigum eftir að gera góða hluti

segir Jakob Leó Bjarnason þjálfari kvennaliðs HK

Kvennalið HK vann sér sæti í Lengjudeildinni sl. haust eftir að hafa endað í 2. sæti í deildinni og tók Jakob Leó Bjarnason við þjálfun liðsins eftir tímabil.

Þú tókst við liðinu í haust, hvernig kom það til? ,,Það var áhugi á mínum starfskröftum svo ég sló til og hitti forráðamenn félagsins, sem endaði með því að við ákváðum að úr yrði samstarf,“ segir Jakob Leó.

Og hvernig hafa æfingar gengið í vetur í öllum þessum samkomutakmörkunum? ,,Æfingar hafa gengið vel þó það hafi alveg reynt á að taka við nýju liði á þessum tímapunkti. Við búum við frábæra aðstöðu og því get ég ekki kvartað og stelpurnar hafa verið duglegar.“

HK vann sér sæti í Lengjudeildinni sl. haust. Hvernig líst þér á sumarið? ,,Mér líst svakalega vel á sumarið. Ég er handviss um að við eigum eftir að gera góða hluti og koma fullt af fólki á óvart. Við erum búin að búa til sterkan hóp og blandan í hópnum er góð. Með trú og sjálfstrausti getum við gert góða hluti í mjög sterkri deild.“

Raunhæf spá

Ykkur er spáð 8. sætinu samkvæmt þjálfurum og fyrirliðum í Lengjudeild kvenna – telurðu það raunhæfa spá eða hvert er markmiðið hjá liðinu fyrir sumarið? ,,Já, ég myndi segja að það sé alveg raunhæf spá, miðað við það að við erum nýliðar. Það hefði verið mjög auðvelt að spá okkur niður en mér finnst spáin sína að aðrir þjálfarar og fyrirliðar í deildinni vita að við erum til alls líklegar.“

Hafa orðið miklar breytingar á leikmannahópnum og telurðu HK vera með sterkari leik-mannahóp í ár en í fyrra? ,,Það hafa orðið töluverðar breytingar á hópnum og í rauninni meiri breytingar en við ætluðum að gera. Við vissum alveg að við yrðum að bæta við okkur nokkrum sterkum leikmönnum enda mikill munur á milli 1. deildar og 2.deildar. Hópurinn í ár er töluvert sterkari að mínu mati enda höfum við bætt við okkur gæða leikmönnum og einnig leikmönn-um með reynslu. Það sem ég vildi svo skapa er barátta um allar stöður í liðinu en þannig taka leikmenn framförum og í dag eru tveir leikmenn að berjast um hverja einustu stöðu.“

Nú er fyrsti leikurinn á móti Víkingi á Víkingsvelli í kvöld. Hvernig líst þér á þann leik og má ekki segja að liðin ættu að þekkja nokkuð vel til hvors annars enda rétt rúmt ár síðan samstarfi HK og Víkings var hætt í kvennaboltanum? ,,Mér líst mjög vel á að mæta Víkingum. Við spiluðum við þær í Lengjubikarnum og þá var niðurstaðan jafntefli í hörkuleik. Það hafa orðið svo miklar breytingar hjá báðum félögum síðan að HK/Víkingur var saman svo ég held að liðin þekki ekkert allt of vel til hvors annars en þó eru auðvitað leikmenn hjá báðum félögum sem léku með HK/Víkingi.“

Það er mikill metnaður innan félagsins

En hvar sérðu HK fyrir þér í framtíðinni, er félagið með umgjörð og metnað til að taka skrefið upp í Pepsí-Max deildina og hvenær þá? ,,Ég sé HK fyrir mér í náinni framtíð með kvennalið í efstu deild. Það er mikill metnaður innan félagsins og það er grunnforsenda fyrir því að það sé hægt að ná því markmiði. Ég myndi segja að umgjörðin hjá okkur sé á pari við félögin í efstu deild og við leggjum mikið upp úr því. Aðstaðan er svo auðvitað frábær og efniviðurinn til staðar í yngri flokkunum.”

Ætlar sér stigin þrjú stig á móti Víkingi

Spenntur fyrir að hefja leik á fimmtudaginn og markmiðið sjálfsagt að taka þrjú stig í fyrsta leik? ,,Mjög spenntur, búinn að bíða spenntur síðan ég skrifaði undir síðasta haust. Markmiðið að sjálfsögðu að skila góðri frammistöðu og jú alltaf markmiðið að taka þrjú stig og það munum við gera,“ segir Jakob Leó.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar