Verkið er 369 blaðsíður – útgáfu byggðakönnunar Kársness fagnað

Byggðakönnun Kársness hefur verið gefin út í glæsilegri bók sem er ríkulega myndskreytt. Bókin er unnin sem hluti af hverfisáætlun Kársness. Byggðakönnunin kom út rafrænt fyrr á árinu en afráðið var að gefa hana einnig út í bók sem verður seld í safnbúðinni Gerðarsafni og hægt er að fá að láni í Bókasafni Kópavogs.

Í byggðakönnuninni er gerð grein fyrir þróun byggðar og byggingarsögu Kársness. Staðháttum er lýst og greint frá upphafi og lykilþáttum í þróun byggðarinnar. Greint er frá húsum, mannvirkjum og náttúrusvæðum sem njóta verndar samkvæmt lögum. Þá er gefið yfirlit yfir einkenni byggðar og byggðarmynstri og lögð fram skráning og varðveislumat.

Í varðveislumati Byggðakönnunarinnar er lagt mat á yfirbragð byggðarinnar, náttúrutengingar og götumyndir. „Þetta er glæsilegt rit sem varpar ljósi á þróun byggðarinnar á Kársnesi á einfaldan og áhugaverðan hátt,“ segir Auður Dagný Kristinsdóttir skipulagsstjóri Kópavogs.

Þetta er í fyrsta sinn sem unnin er svona ítarleg byggðakönnun hjá Kópavogsbæ. Verkið er 369 blaðsíður, ríkt af ljósmyndum en áherslan var á að setja efnið fram á aðgengilegan og myndrænan hátt. Leitað var fanga í skjalasöfnun og rætt við heimildamenn, en einnig eru fjöldi nýrra mynda í byggðakönnuninni.

Byggðakönnunin er unnin af Önnu Maríu Bogadóttur arkitekt hjá Úrbanistan.

Útgáfu bókarinnar verður fagnað 29. október kl. 17.00 í Salnum Kópavogi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar