Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands hefur óskað eftir styrkbeiðni til bæjarráðs Kópavogs vegna Íslandsmóts kvenna í skák, sem skáksambandið vill fá að halda í Kópavogi 2024, en Íslandsmót kvenna er einn stærsti skákviðburður hvers árs.
40 ár síðan Guðlaug vann Íslandsmótið
Á næsta ári verður fertugasta Íslandsmót kvenna haldið, en sögu mótsins má rekja aftur til ársins 1975 þegar fulltrúi Kópavogs, Guðlaug Þorsteinsdóttir, vann mótið aðeins 14 ára að aldri. Það yrði þá í fyrsta skipti að mótið væri haldið í bæjarfélaginu.
Skáksambandið óskar því eftir stuðningi bæjarfélagsins við að halda mótið í Kópavogi á komandi ári. ,,Sá stuðningur gæti falist í fríu húsnæði, kaffiveitingum á meðan á móti stendur, fjárhagsstuðningi upp á 300.000 kr. og mögulegu lokahófi að loknu móti. Skáksambandið mun leggja til alla vinnu við mótið, verða með beinar útsendingar og útvega öll verðlaun. Skáksambandið leggur ávallt mikið upp úr umgjörð þessa móts og mun hún því verða öll hin glæsilegasta,” segir Gunnar.
Íslandsmótið í febrúar
,,Þær dagsetningar sem henta best eru á tímabilinu 5.-14. febrúar og horfum við þá helst til 5.-11. febrúar. Alls sjö dagar. Gott er að enda á sunnudegi en b-flokkur, þar sem yngri stúlkur tefldu, færi einnig fram um helgina,” segir í bréfi Gunnars.
Bæjarráð samþykkti að vísa málinu til umsagnar bæjarritara.
Mynd: Guðlaug, fulltrúi Kópavogs, vann fyrsta Íslandsmót kvenna í skák aðeins 14 ára árið 1975, en hún hefur alls sex sinnum orðið Íslandsmeistari. Mynd skak.is