Eftir tvær vikur verður gengið til kosninga. Þá nýta landsmenn lýðræðislegan rétt sinn til að kjósa sér æðstu ráðamenn landsins til næstu fjögurra ára. Það er stór fjárfesting og kjósendur velja þann kost sem þeir telja að samræmist best þeirra eigin lífsgildum. Einstaklingsfrelsið er ekki bara mikilvægt fyrir einstaklinginn sjálfan heldur vegna þess að þannig farnast samfélögum best.
Við lifum á alvarlegum tímum og það skiptir máli að stjórnmálamenn hafi burði og skilning á umhverfi sínu. Við munum þurfa að sýna mikla ábyrgð á komandi misserum, yfirvegun og vanda okkur.
Sjálfstæðisflokkurinn veit fyrir hvað hann stendur, nú sem endranær. Við viljum sækja fram á grundvelli einstaklingsfrelsis og aukinnar verðmætasköpunar. Við viljum ekki ríkisrekstur nema nauðsynlegri þörf verði ómögulega mætt að öðrum kosti. Við viljum ekki að ríkið reki banka eða stundi verslunarrekstur. Við viljum að þjónustuframboð sé til staðar fyrir fólkið í landinu þótt hið opinbera greiði fyrir hana vegna þess að þekkingin og hugvitið er dreift um allt samfélagið.
Við viljum öflugt atvinnulíf sem fær að vaxa með hagkvæmri umgjörð fyrir samfélagið allt. Við viljum áframhaldandi alþjóðaviðskipti og skiljum að lífsgæði okkar eru drifin áfram af utanríkisviðskiptum okkar. Við viljum meira hugvit og nýsköpun, hina óþrjótandi auðlind og að Ísland verði besta land í heimi fyrir nýsköpunarfyrirtæki.
Við viljum meiri metnað í menntamálum – að við sýnum komandi kynslóðum þá virðingu að við tökum gæði menntunar þeirra alvarlega. Við viljum valfrelsi í heilbrigðismálum – að fjármagn fylgi sjúklingum hver svo sem veitir þjónustuna. Umfram allt viljum við meira frelsi og fleiri tækifæri svo við getum áfram byggt okkar góða samfélag. Samfélag sem er eitt það besta í heimi í öllum samanburði og við getum verið svo ótrúlega stolt af.
Framfarasaga Íslands og saga Sjálfstæðisflokksins er samofin. Það er ekki tilviljun. Munum það 30. nóvember.
Senn verður gengið til kosninga. Við viljum standa vaktina og sækja fram fyrir íslenskt samfélag, fáum við til þess umboð frá fólki. Fyrir mér er valið auðvelt og augljóst. Fyrir mér er valið meiri árangur fyrir okkur öll.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir. Höfundur er utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins