Eins og kunnugt er orðið samþykkti meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar á dögunum tillögur Ásdísar Kristjánsdóttur bæjarstjóra um skipulagsbreytingar og meintan sparnað í menningarmálum bæjarins. Við Píratar, ásamt fulltrúum Viðreisnar, Vina Kópavogs og Samfylkingar, höfnuðum þeim í atkvæðagreiðslu, enda höfum við ítrekað lýst því yfir að tillögurnar hafi verið vanbúnar til afgreiðslu. Við óskuðum eftir því að frekari vinna yrði unnin í tengslum við stefnumarkandi fjárhagsáætlunargerð og afgreiðslu þeirra frestað, en fulltrúar meirihlutans féllust ekki á það.
Vinnubrögð bæjarstjóra í þessu máli hafa einkennst af leyndarhyggju og skorti á virðingu fyrir lýðræðinu sem og fagmennsku. Tillögurnar byggðu á aðkeyptri skýrslu bæjarstjóra frá ráðgjafarfyrirtækinu KPMG, þar sem sýnt var fram á hvernig mætti ná fram hagræðingu með því að breyta og skerða þjónustustig í menningarstofnunum bæjarins. Vandinn er að skýrslan var ekki betur unnin en svo að allir forstöðumenn menningarstofnana bæjarins sendu bæjarstjórn umsagnir sínar þar sem hún er sögð að mörgu leyti stórgölluð, rangfærslur í úttektinni eru leiðréttar og faglegu sjónarmiði komið á framfæri.
Í fyrsta lagi þá er það gagnrýnivert að bæjarstjóri ákveði upp á sitt einsdæmi að ráðast í vinnu við gerð stefnumarkandi tillaga í menningarmálum Kópavogs. Bæjarstjórn skipar í upphafi hvers kjörtímabils fulltrúa í Lista- og menningarráð, nefnd sem fer með málefni menningarhúsa bæjarins. Ráðið fékk þó fyrst veður af umræddri úttekt sex vikum eftir að bæjarstjóri og KPMG höfðu fundað um verkefnið og verkefnatillaga litið dagsins ljós. Þá var þegar búið að undirrita samning um verkið þegar ráðið var upplýst um það, án nokkurs samráðs. Bæjarstjóri hefur svarað þessari gagnrýni á þann veg að ráðið hafi fagnað úttektinni á sínum tíma en vert er að geta þess að engin gögn um verkefnið voru lögð fram eða afhent ráðsmeðlimum, hvorki með fundarboðinu eins og venja er, né á fundinum sjálfum. Þá hafa fulltrúar í lista- og menningarráði gagnrýnt að ekkert samráð hafi verið haft við þau um að lagt yrði upp með með hagræðingarkröfu og útvistun, slíkt hafi aldrei komið til umræðu í ráðinu. Það er mjög alvarlegt að svo freklega sé farið á svig við bæði erindisbréf ráðsins og menningarstefnu Kópavogsbæjar.
Í öðru lagi eru tillögur bæjarstjóra byggðar á aðkeyptri skýrslu KPMG sem var unnin þannig að hver og einn forstöðumaður menningarhúsanna fékk 45 mínútna viðtal við ráðgjafa KPMG. Lokaafurðin var aldrei borin undir viðmælendur fyrir birtingu og í ljós kom að í skýrslunni er töluvert um misskilning, rangfærslur og staðhæfingar sem byggjast á takmörkuðum upplýsingum. Í umsögnum forstöðumanna, sem fulltrúar minnihlutans óskuðu eftir, koma fram áhyggjur af þessu og leiðréttingar. Í framhaldinu óskuðum við eftir því á fundi bæjarráðs að skýrslan yrði uppfærð og tillögurnar endurskoðaðar með hliðsjón af umsögnum forstöðumanna. Það fékk þó ekki hljómgrunn hjá meirihlutanum og málinu var vísað áfram til afgreiðslu í bæjarstjórn.
Í þriðja lagi er það óásættanlegt að leynd ríki um tillögur bæjarstjóra allt fram að bæjarstjórnarfundi. Kjörnum fulltrúum gafst þannig ekki tækifæri til að ræða þær, hvorki í sínu baklandi né við sérfræðinga í málaflokkunum. Þetta eru ólýðræðisleg vinnubrögð sem vinna gegn upplýstri ákvarðanatöku.
Sérfræðingar reyndu, fyrir afgreiðslu bæjarstjórnar, að koma á framfæri áhyggjum af því að sumar þeirra breytinga sem meirihlutinn hefur nú samþykkt, muni ekki leiða til hagræðingar eins og lagt er upp með – heldur verði þær þvert á móti kostnaðarsamar fyrir sveitarfélagið. Auk þess muni þjónusta skerðast og mögulega hljótist hreinlega tjón af. Til að mynda er ætlunin að lokun héraðsskjalasafnsins geti skilað hagræði um 180 milljónir króna fyrir árin 2025-2028. Þegar allt hefur verið tekið til greina, er sennilegt að það sé nærri lagi að setja mínus fyrir framan þá upphæð, það er að segja að líklegra sé að fjárhagslegt tap af ákvörðuninni verði um 180 milljónir á tímabilinu, og í framhaldinu tap upp á margar milljónir árlega. Ekki sé til dæmis gert ráð fyrir þeirri staðreynd að meðferð skjala verði aðeins að takmörkuðu leyti sjálfvirknivædd og skjöl þarfnist ósjaldan sértækrar meðhöndlunar.
Það er nauðsynlegt að vanda til verka þegar eins viðamiklar ákvarðanir eru teknar um menningarleg verðmæti og þjónustu við bæjarbúa. Það þarf að vinna af yfirvegun og taka tillit til faglegs mats sérfræðinga. Það er algjört lágmark að kjörnum fulltrúum sé gert kleift að taka upplýstar ákvarðanir sem byggjast á réttum forsendum. Annað er ólýðræðislegt.
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi og oddviti Pírata