Píratar ætla að tryggja að fólk geti lifað lífi sínu á efri árum með reisn og við góð lífsgæði. Píratar leggja áherslu á sjálfstæði, valdeflingu og aukið valfrelsi fólks á efri árum. Með mannréttindi, velsæld og samráð að leiðarljósi stefnum við að því að skapa samfélag þar sem allir geta lifað með reisn og notið lífsgæða, óháð aldri.
Betri lífeyrir og meiri sveigjanleiki
Píratar vilja útrýma fátækt eldra fólks með því að tryggja að lífeyrir standi undir grunnframfærslu og fylgi launaþróun. Það þarf að reikna út kjaragliðnun síðustu ára og bæta upp fyrir hana með reglubundnum hækkunum.
Virkt samráð er leiðarstef í allri vinnu Pírata. Við viljum tryggja að eldra fólk geti tekið þátt og haft áhrif á ákvarðanir sem varða líf þess og þjónustu. Við viljum einnig veita eldra fólki valfrelsi til að vinna lengur og fresta töku lífeyris án þess að skerða réttindi þeirra.
Fjölbreyttari búsetuúrræði og kynslóðablöndun
Píratar vilja tryggja að eldra fólk geti valið á milli fjölbreyttra búsetuúrræða sem henta þörfum þess. Við ætlum að byggja upp lífsgæðakjarna í blandaðri byggð. Slík nálgun stuðlar að auknum samskiptum, sem geta brotið niður einangrun og dregið úr einmanaleika meðal eldra fólks.
Við viljum bæta þjónustu við eldra fólk þannig að það geti búið heima hjá sér eins lengi og unnt er. Við ætlum að ásamt því að fjölga úrræðum sem bjóða upp á millistig milli heimilis og hjúkrunarheimilis, svo sem þjónustuíbúðir, sem auðvelda fólki að fá þann stuðning sem það þarf án þess að þurfa að flytja á hjúkrunarheimili.
Aðgerðir gegn einangrun og einmanaleika
Framtíðarsýn okkar Pírata er skýr: Samfélag þar sem eldra fólk getur lifað sjálfstæðu, virku og ánægjulegu lífi með fullum stuðningi samfélagsins. Með því að leggja áherslu á aukið valfrelsi, bættar þjónustulausnir og félagslegt öryggi tryggjum við að enginn þurfi að lifa í einangrun eða fátækt á efri árum. Við ætlum að að skapa aldursvænt samfélag þar sem mannréttindi, virðing og samráð eru hornsteinar í allri stefnumótun.
Einangrun og einmanaleiki eldra fólks eru því miður vandamál í nútímasamfélagi. Píratar vilja leita fjölbreyttra leiða til að rjúfa þessa einangrun, til dæmis með því að stuðla að kynslóðablöndun og bjóða upp á þjónustu sem eflir félagsleg tengsl og samfélagslega þátttöku. En fyrst og fremst viljum við leyfa eldra fólki að ráða sér sjálft, frjálst frá boðum, bönnum og skerðingum.
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir
Sálfræðingur og skipar 3. sæti á lista Pírata í Suðvesturkjördæmi