Uppbyggingaróvissa í Fannborg

Á fundi bæjarstjórnar 27 maí s.l. samþykktu fulltrúar framsóknar- og sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Kópavogs byggingaráform lóðahafans Árkórs á Fannborgarreit og JÁ verks á Traðarreit vestari. Allir fulltrúar minnihlutaflokkanna höfnuðu þessari samþykkt. Og af hverju?

Samkvæmt samþykktum byggingaráformum er ekki búið að finna lausn á aðgengi hreyfihamlaðra íbúa í Fannborg 1 – 9 og brunavarnir á byggingartíma krefjast þess að festur verði stigi utan á hús nr. 7 – 9 nema önnur lausn verði fundin. Hægt er að leysa bílastæðamál hreyfihamlaðra í fyrstu fösum niðurrifst en þegar búið verður að rífa allar byggingar sem eiga að hverfa vandast málið. Þá verða einu tiltæku bílastæðin í boði á milli Digranesvegar 5 og 7. Þaðan er ekkert beint aðgengi að Fannborg 1 – 9 nema með lyftu sem þá þyrfti að byggja utan á húsið. Þetta verður ekki gert nema í samráði við og með samþykki allra íbúa og því er nauðsynlegt að samtal við íbúana fari fram fyrr en ekki síðar. Frá því að vinnsla þessa máls hófst fyrir 7 árum hefur ekkert samráð átt sér stað við íbúana sem eru uggandi um sinn hag og virði eigna sinna. Bæjarstjóri boðaði loksins stjórn húsfélagsins til fundar 27. maí s.l. sem er vissulega jákvætt en það er ekki nóg. Ekkert byggingarleyfi verður gefið út nema lausnir liggi fyrir á aðgengi og brunavörnum. Þau atriði þurfa lóðahafar að leysa og þeir hafa ekki séð ástæðu til að tala við íbúana enn sem komið er.

Við sitjum uppi með þetta vanhugsaða deiliskipulag sem flestum ofbýður vegna þéttleika og verðum að tryggja að íbúar í næsta nágrenni fái notið réttar síns þó ekki verði annað. Uppbygging sem mun taka í það minnsta 5 – 7 ár mun hafa gríðarleg neikvæð áhrif á íbúana og sprengingar á klöpp munu hugsanlega hafa áhrif á þær byggingar sem fyrir eru á svæðinu.

Áformin sem samþykkt voru af fulltrúum meirihlutans í síðustu viku breyttust fyrir samþykkt þannig að íbúðum fækkaði talsvert en ekki byggingarmagnið. Það þýðir að litlar íbúðir sem voru sérstaklega hugsaðar m.t.t. nálægðar við borgarlínu stækkuðu og of hátt hlutfall íbúða verður samkvæmt því lúxusíbúðir fyrir efnameira fólk. Enn og aftur fá fjárfestar að ráða fyrir hvaða íbúahóp þeir byggja, þ.e. þá sem eiga nóga peninga.
Það er sorgleg staðreynd að sjálfstæðis- og framsóknarflokkur sem standa fyrir þessari uppbyggingu hafa aldrei í þessu 7 ára ferli komið með tillögu að heildarendurskoðun á öllu miðbæjarsvæðinu. Þeir hafa aldrei horft til framtíðar eða spurt íbúana hvað þeir vilji. Þeir hafa aðeins selt þessar verðmætu lóðir í hendur fjárfesta sem fengu það verkefni að vinna deiliskipulag fyrir sjálfa sig. Fulltrúar minnihlutaflokkanna á síðasta kjörtímabili komu því til leiðar að ráðgjafafyrirtækið Alta var fengið til að teikna upp heildarmynd fyrir allt miðbæjarsvæðið, tengingar á milli Hamraborgar og kirkjuholtsins og möguleika alls svæðisins til framtíðar. Ekkert var gert með þá góðu vinnu og lóðarhafar vissu ekki af henni.

Allt ferli þessa máls hefur yfir sér leyndarhyggju sem er aldrei til góðs. Ég sem bæjarfulltrúi í minnihluta reyni hins vegar að gera það sem í mínu valdi stendur til að tryggja skástu útkomuna úr þessu. M.a. með því að upplýsa almenning og tryggja að ekki sé gengið á rétt íbúanna.

Bergljót Kristinsdóttir
Oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins