Ungbarnabox fyrir verðandi foreldra

Í barnadeild aðalsafns Bókasafns Kópavogs má nú finna útstillingu á hlutum úr ungbarnaboxi sem öllum verðandi foreldrum í Finnlandi stendur til boða að fá endurgjaldslaust. Sagan á bak við boxið er sú að á millistríðsárunum í Finnlandi varð til sú hefð að gefa öllum verðandi mæðrum í landinu gjafakassa með hinum ýmsu hlutum sem myndu nýtast þeim fyrstu mánuðina eftir barnsburð. Þessi hefð lifir enn góðu lífi í Finnlandi í dag og hefur meðal annars stuðlað að lægri tíðni ungbarnadauða þar í landi.

Gjafakassinn hefur tekið nokkrum breytingum í gegnum árin en inniheldur nú, í það minnsta, eftirfarandi hluti í kynhlutlausum litum: Bleyjur, handklæði, snuð, samfellur, buxur, sokka, náttgalla, svefnpoka, sæng, teppi, bók, naglaklippur, hárbursta, tannbursta, hitamæli, brjóstakrem og brjóstapúða. Kassanum fylgir svo dýna og lak og því nýtist hann einnig sem rúm fyrir barnið. Er því óhætt að segja að kassinn sé vegleg gjöf og vel þeginn þegar von er á barni.

Kassinn og innihald hans er í láni frá finnska sendiráðinu á Íslandi og á myndinni má sjá Ann-Sofie Stude, sendiherra Finnlands á Íslandi og Lísu Zachrison Valdimarsdóttur, forstöðumann Bókasafns Kópavogs og er sýningin í bakgrunni.

Sýningin stendur til og með 20. nóvember og mega gestir og gangandi endilega kíkja við og skoða.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar