Föstudaginn 14. janúar sl. voru opnaðar tvær nýjar sýningar í Gerðarsafni Listasafni Kópavogs í tengslum við Ljósmyndahátíð Íslands. Sýningarnar eru eftir Elínu Hansdóttur & Úlf Hansson sem ber nafnið Ad Infinitum og sýningin 08-18 (Past Perfect) eftir Santiago Mostyn.
Sýningin Ad Infinitum í Gerðarsafni er áhrifaríkt samtal myndlistarmannsins Elínar Hansdóttur og hljóðlistamannsins Úlfs Hanssonar. Tvíeykið og systkinin kanna í sameiningu hárfína fyrirbærafræðilega þætti rýmistilfinningar. Elín og Úlfur bjóða áhorfandanum að dvelja í ógreinilegu rými sem erfitt er að henda reiður á en í forgrunni er líkamleg viðvera í umhverfi okkar. Sýning systkinanna samanstendur af stórri innsetningu, hljóðverki og ljósmyndum.
Santiago Mostyn sýnir nýja innsetningu í Gerðarsafni með ljósmyndum og vídeóverkum sem unnin voru þvert yfir Svarta Atlantshafið með áherslu á staði sem listamaðurinn tengist persónulega. Ljósmyndaröðin 08-18 (Past Perfect) er sýnd hér í fyrsta sinn og var gerð á áratug af endurkomum til Trinidad, Zimbabwe, Greneda, Bandaríkjanna og Skandinavíu. Myndaröðin hangir á veggfóðri sem unnið er með bláþrykki (en. cyanotype), sem mun breytast og framkalla grábláan tón með því að vera baðað vetrarsól á meðan sýningunni stendur.
Um listamennina:
Elín Hansdóttir (f. 1980) býr og starfar í Reykjavík og Berlín. Hún lærði við Listaháskóla Íslands, 1999-2003 og KHB-Weissensee í Berlín þar sem hún lauk MA gráðu árið 2006. Sem stendur er Elín í vinnustofudvöl í Künstlerhaus Bethanien. Meðal einkasýninga hennar eru Annarsstaðar í Ásmundarsal (2020) og Simulacra í i8 Gallery (2016). Meðal samsýninga má nefna Iðavöllur: Íslensk myndlist á 21. öld (2021), Glass and Concrete í Marta Herford (2020) og Latent Shadow í Harbinger (2020). Árið 2007 var Elín valin til þátttöku í Frieze Projects í London. Hún hlaut Bjartsýnisverðlaunin árið 2017 og styrk úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur síðar sama ár. Sem stendur er Elín í vinnustofudvöl í Künstlerhaus Bethanien í Berlín.
Þverfagleg listsköpun Elínar Hansdóttur sameinar skúlptúr, ljósmyndun og innsetningar til að skapa staðbundin verk þar sem hún leggur áherslu á upplifun áhorfandans og skynjun einstaklingsins er um leið ögrað. Mörg verka hennar eru leikur með rými og sjónhverfingar. Hún umbreytir rýmum og fyrirframgefnum mælikvörðum sem leiðir af sér að skilningarvitum áhorfandans er boðin birginn. Elín notar tækni á borð við sjónhverfingar, völundarhús og glettin brögð úr ljósmyndun.
Úlfur Hansson (f. 1988) lauk BA-prófi í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands og meistaragráðu frá Mills College í Bandaríkjunum í kjölfarið. Hann hefur sent frá sér þrjár sólóplötur, Arborescence (2017), White Mountain (2013) og Sweaty Psalms (2008).
Úlfur hefur notið ýmsar viðurkenningar fyrir list sína undanfarin ár. Hann hlaut m.a. verðlaun sem tónskáld ársins í alþjóðlegu keppninni International Rostrum of Composers fyrir verk sitt So very strange, árið 2013. Úlfur hefur verið tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna sem „bjartasta vonin“, hann hefur samið tónverk til flutnings fyrir Tectonics-hátíðina undir stjórn Ilans Volkovs, fyrir frönsku útvarpshjómsveitina L’Orchestre De Radio France, Nordic Affect og Kronos Kvartettinn svo eitthvað sé nefnt. Tvær af plötum hans hafa verið tilnefndar til Kramer verðlaunanna. Úlfur Hansson er hvað þekktastur fyrir að hafa fundið upp á og skapað sitt eigið hljóðfæri, Segulhörpuna. Hann hlaut Guthman Musical Instrument verðlauninn í Georgíu í Bandaríkjunum og Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands fyrir hljóðfærið. Segulharpan er handgerð, hún er í senn órafmögnuð og rafmögnuð. Það eru tuttugu og fimm strengir inni í henni, hljóðin úr henni eru órafmögnuð eins og t.d. úr kassagítar eða sellói. Henni er stýrt með stafrænu hljómborði sem nemur snertingu fingurgómanna og hægt er að stjórna hörpunni með tölvu.
Santiago Mostyn (f. 1981) starfar í Stokkhólmi og Berlín en heldur sterkri tengingu við uppvaxtarlönd sín Zimbabwe og Trinidad & Tobago. Hann lauk BA-gráðu árið 2004 við Yale háskóla. Hann nam við Städelschule í Frankfurt am Main 2006-2007 og lauk MA gráðu 2013 við Konungalega listaháskólann í Stokkhólmi. Santiago var í vinnustofudvöl í Künstlerhaus Bethanien 2021 og verður meðlimur í Schloss Solitude 2022. Meðal nýlegra sýninga hans má nefna The Real Show í CAC Brétigny (2022), Swimming Pool-Troubled Waters í Künstlerhaus Bethanien, Berlín, (2021), Deep Listening for Longing á 2021 Borås Art Biennial, Svíþjóð (2021), With New Eyes í Goteborgs Konsthall, Gautaborg (2021), Your Shadow is a Mirror í Andréhn-Schiptjenko, Stokkhólmi, Svíþjóð (2021), og Grass Widows í Southern Alberta Art Gallery, Lethbridge, AB, Kanada (2020).