Tríó Jóns Árnasonar á Sumarjazzi í Salnum á fimmtudaginn

Tríó Jóns Árnasonar kemur fram á Sumarjazz tónleikum í Salnum fimmtudaginn 23. júní kl. 17:00. Eru þetta jafnframt síðustu tónleikar sumarsins í tónleikaröðinni. 

Tríó Jóns Árnasonar er leitt af gítarleikaranum Jóni Ómari en er að auk hans skipað þeim Nico Moreaux á kontrabassa og Magnúsi Trygvasen Eliassen á trommur. Þeir leika tónsmíðar Jóns ásamt vel völdum húsgöngum og jazzlögum sem eru í uppáhaldi hljómsveitarmeðlima.

Gítarleikarinn og tónskáldið Jón Ómar er með BA próf í tónlistarfræðum frá Leeds Conservatoire á Englandi með áherslu á jazz tónlist. Hann hefur fengist við spilamennsku og tónleikahald og starfar nú sem tónlistarkennari við Menntaskóla í tónlist, Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Tónlistarskóla Árbæjar ásamt því að koma reglulega fram með Tríói Jóns Árnasonar, HJAL kvartett og JÁ Tríó. Jón Ómar er framkvæmdastjóri og listrænn stjórnandi Jazzhátíðar Reykjavíkur.

Sumarjazz í Salnum er röð síðdegistónleika á fimmtudögum í júní. Tónleikarnir hefjast kl. 17 en húsið opnar kl. 16. Tónleikarnir fara fram í forsal Salarins og opið verður á barnum. Síðastliðin ár hefur verið troðfullt og gífurlega góð stemning á þessum skemmtilegu tónleikum.

Sumarjazz í Salnum er í boði Salarins og Lista- og menningarráðs Kópavogs og er aðgangur án endurgjalds.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar