Tómas Pálmar keppti á Evrópumeistaramótinu í karate

Dagana 20.-22.ágúst fór Evrópumeistaramót ungmenna í karate fram í Tampere, Finnlandi. Ísland sendi 6 keppendur á mótið og átti Breiðablik einn fulltrúa þar á meðal, Tómas Pálmar Tómasson sem keppti í kata 16-17 ára. Yfir 1000 keppendur voru á mótinu frá 45 þjóðum, en einungis má senda einn keppanda frá hverju landi í hvern flokk. Mótið átti að fara upphaflega fram í febrúar en var frestað út af covid.

Í kata 16-17 ára voru 32 keppendur, Tómas Pálmar keppti í 4.riðli í sínum flokki, Tómas lenti í 6.sæti í sínum riðli en einungis 4 efstu í hverjum riðli komast áfram í milliriðla. Þetta er í fyrsta sinn sem Tómas Pálmar tekur þátt í Evrópumóti og fer þessi keppni því í reynslubankann, sérstaklega þar sem mótið er haldið á undirbúningstíma íslensku keppendanna. Næsta erlenda mót sem áætlað er fyrir Íslenska landsliðið er Norðurlandamót sem haldið verður í Noregi í nóvember.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar