Tölum við krakkana

Fjárhagsáætlun Kópavogs ber það með sér að allir bæjarfulltrúar eru meðvitaðir um nauðsyn þess að aukin áhersla verði lögð á geðheilbrigðismál og velferð. Það er ekki úr lausu lofti tekið enda benda ýmsar kannanir á að kvíði og þunglyndi sé að vaxa hjá sérstaklega ungmennum.

Það er ýmislegt sem eykur á hefðbundin vandamál samfélagsins sem tengist þeim aðstæðum sem hafa herjað á okkur og heiminn allan undanfarið. Veiruskrattinn er ekki bara að veikja fólk og smita heldur er þetta ástand farið að bíta hressilega í andlega heilsu fólks. Við erum smátt og smátt að missa þolinmæðina fyrir þeim aðgerðum sem reglulega þarf að grípa til.

Við sem eldri erum, erum kannski betur útsett fyrir álagi en ég tel að við þurfum sérstaklega að hlúa að unga fólkinu okkar sem drukknar hreinlega í slæmum fréttum.
Fréttaflutningur er á þá leið að varla verður komist hjá því að halda að hér sé hreinlega allt að fara fjandans til. Covid umræðan minnir orðið helst á kappleik um hver kemur með verstu tölur dagsins. Hver skólinn og vinnustaðurinn á fætur öðrum er settur í sóttkví eða smitgát. Fáir virðast sem betur fer verða alvarlega veikir. Nú á þriðja bólusetningin að að duga til eða hvað? Þeim sem ekki þiggja bólusetningu eða geta það ekki er hótað með umræðu um útskúfun. Landspítalinn á hliðinni og aðgerðum frestað.

Svo eru það loftlagsmálin, við stefnum auðvitað í glötun. Hér er allt ómögulegt og heimur á heljarþröm. Ég man eftir kjarnorku-óttanum sem ég aldist upp við að hluta, svo var það suðulandsskjálfta-óttinn. Já maður skyldi nú vera hræddur um líf sitt og framtíð ef einhver yrði þá. Sem betur fer höfðum við ekki internetið og sjálfsskipaða álitsgjafa sem stjórnuðu alla daga líðan manns. Maður átti alveg pásu í leik og fjöri frá þeim hörmungum sem áttu að eyða öllu lífi á jörðu.

Núna eru allir karlmenn, ungir sem gamlir álitnir tilvonandi gerendur. Líka jafnvel ungir drengir sem skulu passa sig svo þeir verði ekki eins og fyrirmyndir sínar í knattspyrnu. Ég er orðin aðeins hugsi yfir smánunarsamfélaginu okkar, sem leyfir ekki fleiri en eina skoðun. Umræðu sem leyfir ekki samræður heldur kveður í kútinn jafnvel hinn þögla meirihluta.

Annað sem ég velti sérstaklega fyrir mér í þessu er hvaða áhrif þessar stöðugu hörmungar og óttafréttir hafa á unga fólkið okkar? Börnin okkar sem opna fyrir flóðgáttir upplýsinga í símunum sínum án þess kannski að einhver sem á að teljast eldri og ábyrgari útskýri fyrir þeim hvað sé í gangi. Hvernig eiga þau að upplifa sig í þessum ömurlega, sótthrædda, sjúka heimi sem mun hvort eð er farast vegna loftlagsvandans. Þau verða auðvitað bara kvíðin, hrædd, þunglynd og vonlaus.

Við þurfum vitanlega að taka covid og loftlagsvána alvarlega en við verðum að átta okkur á hvaða áhrif slík síendurtekning á slæmum fréttum getur haft áhrif á ungt fólk. Það ætti kannski ekki að koma okkur á óvart hvers vegna börn og ungmenni upplifi meiri depurð og kvíða en áður, tölur um sjálfsvíg hækka óhugnanlega líka ár frá ári.

Við verðum að tóna umræður um yfirvofandi heimsendi aðeins niður og það sem er allra mikilvægast gefa okkur tíma að útskýra ástandið fyrir ungu viðkvæmu fólki án þess að draga úr alvarleika þess? Tölum við krakkana okkar og leiðum þau áfram inn í bjartari tíma.

Karen Elísabet Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar