Það var mikil stemming og stanslaust fjör á landsmóti skólalúðrasveita sem haldið var í Kópavogi á dögunum. Á svona landsmótum koma saman börn af öllu landinu í þeim tilgangi að æfa saman nokkur lög og flytja þau síðan á stórtónleikum. Landsmót skólalúðrasveita hafa verið haldin frá árinu 1969, að jafnaði annað hvert ár en Skólahljómsveit Kópavogs var síðast gestgjafi fyrir heilum 35 árum síðan og því mikið lagt í að gera mótið sem veglegast.
Að þessu sinni voru það yngstu hljóðfæraleikararnir, sem skipa svokallaðar A sveitir, sem fjölmenntu í Kópavoginn. Um 300 börn mættu, flest á aldrinum 9-12 ára, ásamt um 60 fararstjórum og áttu saman frábæra helgi.
Hópnum var skipt skipt eftir aldri og getu í þrjár 90 – 100 barna hljómsveitir og fengu sveitirnar nafnið Gula, Rauða og Appelsínugula hljómsveitin. Sveitirnar æfðu í íþróttahúsinu í Digranesi og í Tónhæð, sem er húsnæði Skólahljómsveitar Kópavogs.
Mótið fór afar vel fram og var fjölbreytt og skemmtilegt. Aðalatriðið var að koma saman og æfa skemmtileg lög en auk þess fóru hóparnir í sund í Kópavogslaug, tóku þátt í trommugjörningi með múrfötum undir stjórn tónlistarmannanna Sigga og Kela. Jón Víðis töframaður heimsótti líka alla hópana á æfingum með skemmtileg töfrabrögð eins og honum er einum lagið.
Á laugardagskvöldinu var haldin skemmtun þar sem bræðurnir Jón Jónsson og Friðrik Dór komu fram og náðu uppi þvílíkri stemmningu að sjaldan hefur annað eins sést. Töframaðurinn Jón Víðis hélt áfram að töfra alla upp úr skónum og svo var haldið ball undir stjórn DjGauks. Jóhann Örn, kokkur Álfhólsskóla eldaði fyrir hópana alla helgina og voru börn og fullorðnir hæstánægðir með matseldina sem var afar góð og allir héldu góðri orku alla helgina við þessa miklu dagskrá.
Á sunnudeginum var svo uppskeruhátíð helgarinnar haldin í formi stórtónleika í íþróttahúsinu Digranesi þar sem allar sveitirnar komu fram og spiluðu hver um sig fjögur lög sem þau höfðu æft yfir helgina. Tónleikarnir voru afar vel sóttir og flutningur sveitanna algjörlega til fyrirmyndar.
Það voru því glaðir hljóðfæraleikarar og hressir sem héldu heim eftir vel heppnaða helgi í Kópavoginum. Gestgjafarnir í Skólahljómsveit Kópavogs ásamt stjórn íslensku skólalúðrasveitasamtakanna eru fullir þakklætis í garð allra þeirra sem komu að skipulagningu og framkvæmd mótsins á einn eða annan hátt.