Rúna K.Tetzschner sýnir verk sín á aðalsafni Bókasafns Kópavogs í október. Á sýningunni eru olíumálverk á striga þar sem viðfangsefnið er íslensk náttúra í margbreytilegum myndum. Málverkin birta hughrif frá íhugunarferðum listamannsins um töfraheima náttúrunnar og sýninguna í heild má því sem skoða sem náttúruhugleiðslu.
Hluti sýningarinnar er líka helgaður náttúrufantasíu og jákvæðum skilaboðum þar sem um er að ræða litlar ævintýramyndir unnar með tússlitum og glitrandi litum sem bræddir eru á pappírinn með hitatæki. Myndirnar kallast á táknrænan hátt á við fyrstu myndirnar sem Rúna skapaði þegar myndlistarmaðurinn innra með henni vaknaði eftir 16 ára dvala árið 1999. Þær myndir voru unnar með sömu tækni.
Fyrsta myndlistarsýning Rúnu var haldin á Bókasafni Kópavogs,sem bauð henni að sýna skrautrituð ljóð og ljóðaskreytingar í sýningarskápum í tengslum við Norræna bókasafnsviku.
„Mér hafði ekki dottið í hug að ég gæti haldið myndlistarsýningu fyrr en bókasafnið hafði samband en þessi velvild fyrir 22 árum varð til þess að hvetja mig áfram á myndlistarbrautinni.“
Sýningin Töfrar og náttúruhughrif fer fram í fjölnotasal aðalsafns og stendur til og með 30. október. Rúna verður á staðnum alla þriðjudaga kl. 16:30 til 18:00 á meðan sýningin stendur yfir þar sem hún spjallar við gesti og sýnir tækni sína við sköpun myndanna. Allir velkomnir.