Á fundi bæjarráðs í síðustu viku var lögð fram drög að nýrri stefnu um gervigreind fyrir Kópavogsbæ, en jafnfamt óskað eftir ábendingum bæjarráðsfulltrúa við stefnudrögin.
STEFNA UM GERVIGREIND
Stefna um gervigreind tekur mið af Stefnu Kópavogsbæjar sem samanstendur af hlutverki, framtíðarsýn, gildum og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, og hefur til hliðsjónar aðrar stefnur bæjarins. Gildin eru virðing, heiðarleiki, framsækni og umhyggja. Stefnan styður við stefnu bæjarins hvað varðar sjálfbærni auk þess að vera í fararbroddi í nýsköpun og tileinka sér tækninýjungar í starfsemi sinni.
Tilgangur gervigreindarstefnu Kópavogsbæjar er að auka skilvirkni og tryggja ábyrga og siðferðislega notkun gervigreindar og að notkunin sé í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.
Bæjarstjórn og bæjarráð Kópavogsbæjar bera ábyrgð á stefnunni. Forstöðumaður upplýsingatæknideildar ber ábyrgð á framkvæmd og viðhaldi stefnunnar í samræmi við ákvarðanir bæjarstjórnar og bæjarráðs. Sviðsstjórar og aðrir stjórnendur sviða bera ábyrgð á að framfylgja stefnunni hver á sínu sviði. Settar verða verklagsreglur og leiðbeiningar til stuðnings innleiðingar á stefnunni.
Stefnan tekur til allrar starfsemi, upplýsingakerfa og gagna Kópavogsbæjar. Stefnan samanstendur af tveimur stefnuáherslum og meginmarkmiðum þeirra.
ÁBYRG NOTKUN GERVIGREINDAR
Kópavogsbær ætlar að;
- nýta gervigreind á ábyrgan hátt í samræmi við Stefnu Íslands um gervigreind frá 2021 og siðferðislegar leiðbeiningar Framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins um áreiðanlega notkun gervigreindar frá 2019
- stuðla að og viðhalda virkri vitund um örugga notkun gervigreindar hjá starfsfólki, stjórnendum og öðrum sem nýta sér gervigreind í störfum sínum með því að tryggja virka fræðslu og þjálfun starfsfólks í tækni gervigreindar
- meta stöðugt áhættu af notkun gervigreindar og innleiða aðgerðir til að draga úr áhættu
- tryggja gagnsæi við notkun gervigreindar í starfsemi Kópavogsbæjar.
AUKIN SKILVIRKNI
Kópavogsbær ætlar að;
- nýta gervigreind til að auka skilvirkni og gæði starfseminnar
- efla þjónustu með því að auka stafræna þjónustu bæjarins með notkun gervigreindar. Lagt fyrir bæjarráð 17.10.2024
Bæjarráð samþykkti að fela bæjarstjóra að vinna áfram að stefnumótun.