Kópavogsbær fagnar nú sjötíu ára afmæli sínu. Sjálfur afmælisdagurinn ber upp á sunnudag, en þann 11. maí 1955 hlaut bærinn kaupstaðaréttindi. Þá voru íbúarnir tæplega 4.000 talsins, en byggðin hafði þá tekið að rísa á fyrri hluta 20. aldar. Í dag eru íbúarnir orðnir yfir 40.000 — íbúafjöldinn hefur því meira en tífaldast á þessum sjö áratugum.
Á fyrstu árum þéttbýlis og raunar lengi vel var byggðin í Kópavogi fyrst og fremst á Kársnesi eða gamla Vesturbænum og í Austurbænum austan Hafnarfjarðarvegar. Með fleiri íbúum þurfti að skipuleggja byggðina betur, miðbærinn við Hamraborg byggðist upp og smám saman þandist byggðin út. Smárahverfi tók að rísa á níunda áratugnum og um aldamótin var búið að skipuleggja byggð allt upp að Vatnsenda.
Nýjasta hverfi bæjarins, Vatnsendahvarf, stendur á hæsta punkti höfuðborgarsvæðisins með frábært útsýni og í nálægð við mikla náttúrufegurð. Þar er hafin gatnagerð sem er fyrsta skrefið í að móta nýtt og spennandi hverfi sem verður verðmæt viðbót við bæinn okkar. Á hinum bæjarendanum, á Kársnesi, er einnig mikil uppbygging á döfinni. Rammahluti aðalskipulags fyrir svæðið er á lokametrunum, eftir vandað og gagnvirkt samráð við íbúana sem þekkja svæðið best. Ég er fullviss um að með þessari vinnu mun Kársnesið verða einn eftirsóknarverðasti staður á höfuðborgarsvæðinu hvort sem er til að búa á eða starfa.
Kópavogur hefur lengi verið annað stærsta sveitarfélag landsins. Þrátt fyrir stærðina ríkir hér áfram hlýlegur bæjarbragur, þjónustan er persónuleg og boðleiðir stuttar. Starfsfólk Kópavogsbæjar leggur metnað sinn í að veita íbúum þjónustu af fremsta gæðaflokki, hvort sem er í leikskólum, grunnskólum, menningarhúsum eða félagsmiðstöðvum svo dæmi séu tekin. Þá er lögð rík áhersla á að sinna bæjarlandinu vel, standa vörð um opin svæði og vinna faglega að skipulagsmálum og þeirri uppbyggingu sem fram undan er.
Kópavogur hefur ávallt verið leiðandi og framsækinn. Hér hefur verið unnið brautryðjendastarf um árabil. Má þar nefna að fyrsti kvenkyns bæjarstjóri landsins, Hulda Jakobsdóttir, gegndi embættinu á árunum 1957 til 1962 og var í fararbroddi í forystu kvenna í stjórnmálum.
Við erum einnig stolt af öflugri menningu og íþróttalífi. Kópavogur er mikill íþróttabær, þar sem félögin hafa ávallt notið trausts og stuðnings bæjarins. Aðstaða til íþróttaiðkunar er til fyrirmyndar í bæði efri og neðri byggðum. Menningarstarfsemi er fjölbreytt og kraftmikil; menningarhúsin okkar vekja athygli víða og hýsa fyrsta listasafn landsins sem kennt er við konu, Gerði Helgadóttur, sem og fyrsta sérhannaða tónleikahúsið á Íslandi, Salinn. Menningin nær víða, frá Skólahljómsveit Kópavogs og öflugum barnakórum til tónlistarskóla sem eflir tónlistarhefðina í bænum.
Á þessu merka afmælisári munum við halda upp á bæinn okkar með fjölbreyttum hætti. Hápunkturinn verður sjálfan afmælisdaginn, með veglegri afmælishátíð sem stendur yfir í nokkra daga. Ég hvet alla bæjarbúa til að taka þátt og mæta í afmæliskökuboð í Smáralind laugardaginn 10. maí. Þá verður einnig haldin glæsileg Barnamenningarhátíð í menningarhúsunum okkar, sem nær hápunkti afmælishelgina sjálfa með fjölbreyttum viðburðum fyrir alla fjölskylduna. Götugangan „Virkni og vellíðan“ fer fram 13. maí og eins og alltaf mun hópur hraustra eldri Kópavogsbúa ganga saman í Kópavogsdalnum.
Við munum einnig halda áfram að bjóða upp á viðburði allt árið með afmælisbrag – með það að leiðarljósi að gera árið sem eftirminnilegast og gleðilegt.
Til hamingju með sjötíu ára afmælið! Framtíðin er í Kópavogi.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs