Þurfum að breyta okkar leik aðeins segir Leifur Andri Leifsson fyrirliði HK

Besta deild karla í knattspyrnu fer að rúlla á morgun, mánudaginn 10. apríl og HK, sem eru nýliðar í deildinni, fá það verðuga verkefni í fyrstu umferð að mæta grönnum sínum úr Breiðablik á Kópavogsvelli.

Kópavogspósturinn heyrði í fyrirliða HK, Leif Andra Leifssyni og spurði hann hvernig honum lítist á komandi sumar fyrir hönd HK? ,,Mér líst mjög vel á það við erum spenntir og klárir í verkefnið,” segir hann.

Hafa orðið miklar breytingar á liðinu á milli ára og komið þið með jafn sterkt lið til leiks í ár og þið voruð með í fyrra? ,,Það hafa orðið smá breytingar á hópnum og við höfum náð að fylla vel í þau skörð sem hafa komið og nýju mennirnir hafa komið vel inn í þetta hjá okkur eftir veturinn.”

Ekki jafn mikið svigrúm fyrir mistök

Þrátt fyrir að þið hafið ekki unnið Lengjudeildina í fyrra þá fóruðu þið nokkuð sannfærandi í gegnum mótið í fyrra og tryggðuð ykkur örugglega sæti í Bestu deildinni. Þú átt væntanlega von á meiri samkeppni í ár og eru þið með lið til að standast kröfur Bestu-deildarinnar? ,,Ég held að við gerum okkur fulla grein fyrir því að við erum að fara inn í allt öðruvísi tímabil en í fyrra og við þurfum að breyta okkar leik aðeins í takt við það. Það er augljóst að það eru meiri gæði í efstu deild og það er ekki jafn mikið svigrúm fyrir mistök. Okkur finnst við vera með lið sem getur staðið í öllum liðum og náð í úrslit, við erum með reynslumikla leikmenn í okkar liði sem hafa spilað í efstu deild áður sem ég tel vera styrkleiki fyrir okkur til að standast þær kröfur sem eru í Bestu-deildinni,” segir hann.

Erum þokkalega sáttir

Ertu sáttur með hvernig liðinu hefur gengið á undibúningstímabilinu og er búið að slípa liðið fyrir fyrsta leik? ,,Við höfum verið svona þokkalega sáttir með undirbúningstímabilið úrslitin skipta kannski ekki öllu máli þar en við höfum náð að fara vel yfir það sem hefur mátt fara betur og náð að slípa okkur vel saman.”

Markmið að tryggja veru okkar í deildinni

En hver eru svo markmið HK fyrir komandi tímabil? ,,Ég held að okkar aðal markmið sé náttúrulega bara að tryggja áframhald okkur í deildinni, en í leiðinni að þróa okkar leik enn meira og spila góðan fótbolta. Við erum að setjast niður núna í vikunni til að fara nánar yfir okkar markmið sem verða bara fyrir okkur eins og er.”

Pressan er á þeim en ekki okkur

Og fyrstu leikur verður nágrannaslagur við Íslandsmeistara Breiðabliks á Kópavogsvelli, hvernig verður að mæta grönnum ykkar Breiðablik í fyrsta leik? ,,Það er mjög skemmtilegt og krefjandi í þokkabót en við erum tilbúnir við förum allavega inn í þann leik óhræddir, pressan er á þeim ekki okkur.”

Hef ekki nennt að pæla neitt í þeirri umfjöllun

Nú hefur það verið gagnrýnt oft á tíðum að þið skuluð leika heimaleiki ykkar innandyra í Kórnum, hefur þetta áhrif á ykkur að leika inni og úti til skiptis og hvernig er æfingum háttað hjá ykkur, æfið þið alltaf inn í Kórnum? ,,Það að við spilum innandyra er náttúrulega bara ekki undir okkur komið þannig ég hef ekki nennt að pæla neitt í þeirri umfjöllun, en það er kannski leiðinlegt fyrir áhorfenda þegar það er sól og sumar úti. En að spila inni í Kórnum er bara mjög gott, en það má fara að skipta um gervigras því það er löngu komið á tíma sinn, en sleppur til þegar það er vökvað,” segir Leifur og bætir við: ,,Við æfum mest fyrir utan Kórinn á gervigrasinu þar þannig þetta á ekki að hafa nein áhrif á okkur. Það eru bara forréttindi að hafa kost á því að geta farið inn þegar það er ekki hægt að vera úti.”

Hvað svo með fyrirliðann sjálfan, Leif, er hann búinn að vera heill heilsu í vetur og tilbúinn í Bestu deildina? ,,Ég hef ekki náð alveg fullum vetri en hef náð góðum tíma núna sem er meira en á síðasta ári svo ég verð tilbúinn fyrir Bestu deildina,” segir Leifur sem hlakkar til fyrsta leiks í mótinu á móti Breiðablik.

Mynd: Leifur Andri Leifsson fyrirlið HK. Mynd: fotbolti.net

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar