Þrjú ár af árangri – forysta með framtíðarsýn í Kópavogi

Við sem stöndum að meirihluta í bæjarstjórn Kópavogs höfum frá upphafi haft skýra sýn: að gera Kópavog að farsælu og framúrskarandi sveitarfélagi – í fremstu röð. Við trúum því að það sé hægt að reka bæinn á ábyrgan og sjálfbæran hátt án þess að fórna metnaði í þjónustu við íbúa. Nú, þegar þrjú ár eru liðin frá því ég tók við sem bæjarstjóri, er tími til kominn til að líta um öxl og fara yfir það helsta sem áunnist hefur.

  1. Sterkasta fjárhagsstaða Kópavogs í sautján ár

Hjá okkur hefur grunnþjónusta bæjarins verið sett í öndvegi, verkefnum hefur verið forgangsraðað með ábyrgum hætti og tækifæri nýtt til hagræðingar. Niðurstaðan hefur verið ein besta afkoma Kópavogs í heil sautján ár. Þrátt fyrir metnaðarfullar framkvæmdir í innviðum til framtíðar hafa skuldahlutföll haldið áfram að lækka og eru nú með því lægsta sem finnst meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

  1. Milljarður í vasa bæjarbúa

Við trúum því að sveitarfélög geti bæði veitt góða þjónustu og haldið sköttum lágum – skattlagning er ekki sjálfsögð ef ekki liggur fyrir brýn þörf. Þess vegna höfum við lækkað fasteignaskatta og önnur fasteignagjöld á hverju ári kjörtímabilsins. Hver er árangurinn? Skattar hafa lækkað um rúman einn milljarð króna á kjörtímabilinu sem þýðir að hver fjölskylda í Kópavogi heldur eftir 56.000 krónum að meðaltali á ári. Þetta er áþreifanlegur stuðningur við heimilin í bænum.

  1. Leikskólabylting sem virkar – Kópavogsmódelið

Við stóðum frammi fyrir djúpstæðum vanda í leikskólastarfi – manneklu, álagi og óstöðugleika. Því ákváðum við að stíga stórt skref: breyta fyrirkomulaginu frá grunni. Nú, eftir breytingarnar, hefur ekki þurft að loka leikskólum vegna manneklu á meðan lokað var í yfir 200 daga árið áður en fórum í breytingar. Leikskólar eru að mestu fullmannaðir, fleiri börn fá pláss og starfsumhverfið hefur batnað bæði fyrir börn og starfsfólk. Það sem gleður okkur sérstaklega er að tekjulægstu heimilin eru meðal ánægðustu foreldranna – þau nýta sér í auknum mæli gjaldfrjálsa leikskólaþjónustu og finna fyrir raunverulegum ávinningi breytinganna.

  1. Nýtt líf í menningarlífinu

Við ákváðum að gefa menningarstarfinu nýtt yfirbragð með aukinni samþættingu milli stofnana og áherslu á samstarf. Með breytingunum var fjármunum forgangsraðað með nýjum hætti, hagrætt í rekstri sem kom þó ekki niður á þjónustunni. Nýtt upplifunarrými lista, bókmennta og vísinda hefur verið opnað en þar mætast barnabókasafn og náttúrufræðistofa í opnu, lifandi rými sem hefur fengið frábærar viðtökur. Þetta er ekki niðurskurður heldur ný hugsun – og hún virkar.

  1. Heilsa og hreyfing í forgrunni

Við höfum staðið við gefin fyrirheit þegar kemur að hreyfingu og heilbrigði – fyrir alla aldurshópa. Við höfum sett aukið fjármagn í heilsueflingu eldri borgara og hækkað frístundastyrk barna og ungmenna. Við höfum einnig forgangsraðað fjármunum í uppbyggingu íþróttamannvirkja, bæði í efri og neðri byggðum, því heilsa okkar leggur grunninn að blómstrandi bæjarfélagi. Þjónustukönnun sýnir að Kópavogur býður nú upp á eina bestu íþróttaaðstöðu landsins.

Traust stefna til framtíðar

Við höfum sýnt í verki að það er hægt að vera bæði ábyrg og framsýn. Við leggjum áherslu á skynsama nýtingu fjármuna og bætt gæði þjónustu án þess að hækka skatta á íbúa. Við kjósum að framkvæma – að breyta því sem þarf að breyta og styrkja það sem þegar er gott. Kópavogur stendur framar öðrum sveitarfélögum á mörgum sviðum og við erum staðráðin í að halda áfram á þeirri braut – fyrir fólkið í bænum okkar.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins