Þar sem ræturnar liggja

Mér finnst gott að vera Íslendingur. Mér finnst dásamlegt að byrja daginn í Sundlaug Kópavogs. Mér finnst líka gott að fara þar í leikfimi og jóga. Mér finnst yndislegt að ganga strandstíginn með Kársnesinu. Ég nýt líka göngutúranna um Kópavogsdalinn og Fossvogsdalinn. Mér finnst gaman að fara í Guðmundarlund með barnabörnin á aðventunni og hitta þar fyrir Grýlu og jólasveina. Heimsóknir með yngstu kynslóðinni í Bókasafn Kópavogs og á náttúrusýninguna eru alltaf tilhlökkunarefni. Þær eru ófáar ánægjustundirnar í Salnum og Gerðarsafni. Og hugsa sér tónlistaruppeldið sem börnin mín og barnabörn hafa notið í Kópavogi! Þökk sé Skólakór Kársness og Tónlistarskóla Kópavogs. Fiskbúðin í Hófgerði er gullmoli. Það er svo margt gott við að búa í Kópavogi.

elgaHún er líka ljúf meðvitundin um alla kostina sem fylgja því að búa á okkar friðsælu, náttúrufögru eyju þar sem blessað kalda og heita vatnið berst úr iðrum jarðar. Enn einn ganginn hafa kosningar farið fram. Breytingar sem verða byggjast á lýðræðislegum vilja kjósenda og áhuga þeirra á að nýta atkvæðisrétt sinn.

Á sama tíma berast hörmulegar fregnir af heimsins vígaslóð. Það er átakanlegt að stríð sé í Evrópu og ógn um enn verra vofi yfir. Við sem héldum að við hefðum lært lexíuna af mannfalli og eyðileggingu heimsstyrjalda. Kjarnorkuógnin er aftur á dagskrá þrátt fyrir vítin sem ættu að vera til varnaðar. Það er þyngra en tárum taki að verða vitni að hörmungunum í Palestínu og ófriðarblikunum í Mið-Austurlöndum.

Það er óskiljanlegt að veðurfars- og loftslagsbreytingar, sem íbúar hvarvetna í heiminum upplifa, dugi ekki til að sannfæra ráðamenn heimsins um að spyrna við fótum. Það vekur ugg að mannkynið telji sér rétt að ofnýta náttúruna og auðlindir hennar í skefjalausri græðgi. Lýðræðið og réttarríkið á undir högg að sækja í ólíklegustu löndum. Aðstæður knýja fólk til að flýja heimkynni sín og rætur. Hlutskipti flóttafólks er vart hægt að gera sér í hugarlund. Því fylgir áhætta að gleyma að rifja upp lærdóma sögunnar.

Þversagnirnar undirstrika merkingu og mikilvægi jólanna: Jólahátíðinni fylgir helgi og góðvild. Og um áramót strengja menn gjarnan heit. Vonandi verða heitstrengingar fólks víða um heim til þess að efla friðsæld og virðingu í samskiptum við móður náttúru. Ég er alin upp í Kópavogi og ég er þakklát fyrir að fá að búa þar sem ræturnar liggja. Um leið og ég óska Kópavogsbúm gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári þakka ég fyrir hönd Vina Kópavogs góð samskipti á árinu sem er að líða.

Helga Jónsdóttir er oddviti Vina Kópavogs í bæjarstjórn

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar