Það vantar fleiri skólastofur í Hörðuvallaskóla

Hreinsun og niðurrif í kjallaranum í Kórnum

Á næstu 5 árum er búist við töluverðri fjölgun nemenda í Hörðuvallaskóla og það þurfi að bæta við skólastofum í Hörðuvallaskóla við Vallakór miðað við áætlaðan nemendafjölda, en skólastofurnar eru 8 í dag. Þá er skortur á öðrum rýmum m.a. þarf að bæta aðstöðu fyrir kennara og félagsmiðstöð skólans, Kúlan er á hrakhólum.

Bæjarráð Kópavogs hefur samþykkt beiðni Ásthildar Helgadóttur, sviðsstjóra umhverfissviðs Kópavogsbæjar, um heimild til þess að hefja framkvæmd við hreinsun og niðurrif í Kórnum kjallara, en beiðninni fylgir minnisblað frá sviðsstjóra menntasvið Kópavogsbæjar Önnu Birnu Snæbjörnsdóttur.

Í minnisblaðinu kemur fram áætluð þróun nemendafjölda Hörðuvallaskóla og skipulag skólastarfs í Vallarkór, en fyrirsjáanlegt er að stórir árgangar Hörðuvallaskóla flytja úr Baugakór yfir í Vallarkór á næstu árum. ,,Við upphaf skólaársins 2019-2020 var komið fyrir nýju kennslurými í sal sem dansfélagið Hvönn hafði áður til umráða í Vallarkór. Þar eru nú 3 hópar í 8. árgangi. Þetta ár og næstu 2 skólaár útskrifast 70 börn og 100 börn koma inn í Vallakór í staðinn. Næstu 5 ár þar á eftir verða u.þ.b. 100 nemendur í hverjum árgangi á unglingastigi og hóparnir u.þ.b. 12. Í dag eru 8 kennslurými í Vallarkór fyrir utan stóra salinn sem hýsir 2 námshópa.“

Vantar að lágmarki tvö kennslurými fyrir skólaárið 2022-2023

Skólann mun því vanta að lágmarki tvö kennslurými auk fjölnota rýmis fyrir skólaárið 2022-2023. Samkvæmt núverandi spám um þróun nemendafjölda er ekki gert ráð fyrir fækkun nemenda við Vallarkór á næstu árum.

Öll rými eru þaulnýtt

,,Öll rými í Hörðuvallaskóla, bæði Baugakór og Vallakór, eru þaulnýtt og skortir rými m.a. fyrir vinnuaðstöðu kennara, stuðning og skólaþjónustu, frístund, skákkennslu og tónlistarnám á vegum tónlistarskóla.“ 

Félagsmiðstöðin Kúlan á hrakhólum

Félagsmiðstöðin Kúlan er í Hörðuvallaskóla

,,Félagsmiðstöðin Kúlan í Hörðuvallaskóla hefur jafnframt verið á hrakhólum með húsnæði innan Vallarkórs og þurft að færa sína aðstöðu í samræmi við aðstæður og þarfir skólastarfs hverju sinni. Mikil þörf er fyrir framtíðaraðstöðu félagsmiðstöðvar til að geta stuðlað markvisst að aukinni þátttöku unglinga í starfi félagsmiðstöðvarinnar jafnt í dagopnunum sem kvöldopnunum auk sérstakra viðburða og möguleika til skapandi vinnu og sértæks hópastarfs. 

Foreldraráð skólans hefur m.a. lagt mikla áherslu á að félagsmiðstöðin fái framtíðaraðstöðu innan skólabyggingarinnar.“

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar