Það má alltaf gera betur í þjónustu og viðmóti bæjarins

Karen Elísabet Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi sækist eftir 1. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Kópavogi, en prófkjörið fer fram 12. mars nk. Karen hefur undanfarin átta ár starfað sem bæjarfulltrúi í bæjarstjórn Kópavogs og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum auk þess að vera formaður velferðarráðs, lista- og menningarráðs og öldungarráðs. Karen er með BA gráður í sálfræði og meistaragráðu í mannauðsstjórnun, en hún starfar sem skrifstofustjóri samhliða störfum bæjarfulltrúa.

En hver er Elísabet Karen Halldórsdóttir, fædd og uppalin í Kópavogi? ,,Já, ég er uppalinn í Kópavogi, fyrst á Hlíðarvegi og svo í Hvannhólma, þar sem ég á heima núna með dætrum mínum og hundi. Mér hefur alltaf liðið vel í Kópavogi, það var frábært að alast hér upp og ótrúlegar breytingar sem ég hef upplifað á bænum frá því ég var krakki.”

Fífan rissuð upp heima hjá Karen

Og hvenær og hvaðan kemur áhugi þinn á sveitarstjórnarmálum? ,,Ég er alin upp á afar pólitísku heimili. Foreldrar mínir voru virk í starfi flokksins og heima hjá mér voru ýmis verkefni teiknuð upp. Gunnar Birgisson og pabbi voru miklir mátar og ég get sagt að knattspyrnuhöllin okkar Fífan var rissuð upp heima af þeim tveim eitt kvöldið þar sem menn voru ekki að drekka kaffi. Ég hef því aldrei komist hjá því að hafa pólitískan áhuga og samhliða því tók ég ákvörðun um að taka þátt í sveitastjórnarmálum. Til þess að geta haf góð áhrif á samfélagið okkar.”

Maður þarf að hafa áhuga á öllu

Þú hefur undanfarin átta ár setið í bæjarstjórn Kópavogs og fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2018 varstu í þriðja sæti á listanum, en nú hefur þú áhuga að leiða flokkinn fyrir komandi kosningar og gefur kost á þér í 1. sæti listans. Hver er ástæðan fyrir því og þú hefur væntanlega enn brennandi áhuga á málefnum bæjarins miðað við fyrirhugað framboð þitt? ,,Já áhugi minn hefur ekki minnkað og í raun helst til aukist samhliða þeirri þekkingu sem ég hef aflað mér á undanförnum árum í bæjarstjórn. Þetta er ótrúlega víðfeðmt starf. Maður þarf að hafa áhuga á öllu, allt frá sorpi til velferðarmála. Bæjarstjórnarfulltrúar þurfa líka alltaf að vera til taks, hafa tíma til að sinna verkefnum og málum bæjarbúa. Ég tel mig hafa það sem þarf til þess að halda áfram í bæjarstjórn næstu fjögur árin. Það að ég sækist eftir 1. sætinu felur í sér að Ármann hefur ákveðið að snúa sér að öðru eftir farsælan feril og ég tel mig geta tekið við af honum vegna reynslu minnar og áhuga. “

Stöndum frammi fyrir miklum áskorunum

Þú hefur lengi verið búsett í Kópavogi og þekkir því almennt vel til í bænum. Hverjar eru þínar helstu áherslur og hvað má gera betur í Kópavogi? ,,Sem betur fer er bæjarsjóður vel rekinn og hefur verið það undanfarin ár. Alltaf má gera betur í þjónustu og viðmóti bæjarins. Við stöndum jú frammi fyrir miklum áskorunum vegna lögbundinna verkefna og má þar nefna skólamál og málefni fatlaðs fólks sem eru þeir málaflokkar sem þurfa mikið fjármagn. Ég tel að við þurfum að setja meiri kraft og útsjóna-semi í heimaþjónustu aldraðra, vera viðbúin eftirköstum Covid hvað varðar andlega heilsu fólks, við þurfum annan menntaskóla í Kópavogi og flýta þarf eins og kostur er skipulagi á nýjum hverfum vegna húsnæðisskorts sem er á landinu.”

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í meirihluta þau ár sem þú hefur setið í bæjarstjórn og síðustu fjögur ár með Framsóknarflokknum. Hefur samstarfið gengið vel og er Kópavogur að þróast í rétta átt, spennandi tímar framundan í bænum? ,,Já, þetta hefur gengið vel, við erum fimm bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og einn frá Framsókn. Við erum samtaka í ákvörðunum okkar til að efla hag bæjarbúa. Eðlilega reynir alltaf á samskipti í samstarfi en mín upplifun er að þetta hefur verið gott og farsælt.”

Reynsla í bland við nýtt fólk hljómar vel

Það munu 16 taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins þann 12. mars nk. og með brotthvarfi Ármanns Kr. Ólafssonar bæjarstjóri og Margrétar Friðriksdóttur, sem hefur verið önnur á lista Sjálfstæðisflokksins, verða töluverðar breytingar á lista flokksins. Hvernig horfir þú á þessar breytingar, jákvætt fyrir flokkinn að fá ferskt fólk inn í bland við eldri og reyndari bæjarfulltrúa? ,,Já, það eru töluverðar breytingar með brotthvarfi þeirra og 16 framboð sýna styrk Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi. Ég fagna nýju fólki en er þakklát þeim sem eru með reynslu og vilja halda áfram. Reynsla í bland við nýtt fólk hljómar vel. Það tekur tíma að komast inn í bæjarmálin sem eru mörg hver flókin með langa sögu og því nauðsynlegt að það verði ekki of mikill spekileki frá okkur því það gefur öðrum framboðum ákveðið forskot í bæjarstjórn fyrstu tvö árin,” segir hún að lokum.

Mynd. Karen með hundinum sínum, Þulu.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar