Árangur Breiðabliks í Bestu deildinni í ár var magnaður, en bæði kvenna- og karlalið félagsins tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í ár eftir magnaða sigra í hreinum úrslitaleikjum, á útvöllum ríkjandi Íslandsmeistara, í lokaumferð Bestu deildarinnar. Kvennalið Breiðabliks gerði jafntefli við Val á Hlíðarenda sem nægði þeim til sigurs í deildinni og karlaliðið fór í Víkina sl. sunnudag, með bakið upp vegg, en liðið þurfti að vinna leikinn til að hampa Íslandsmeistaratitlinum og það gerðu drengirnir í Breiðabliks sannfærand.
Mögnuð tvenna í Kópavogi
Nú var árangur karla- og kvennaliðs Breiðabliks einstakur, bæðu unnu þau Íslandsmeistaratitilinn eftir hreina úrslitaleiki þar sem bæði liðin stóðust prófið. Hvaða þættir telur þú að hafa verið lykillin að þessum frábæra árangri liðanna? ,,Þetta er náttúrulega algerlega frábær árangur og grunnurinn að honum er okkar frábæra barna- og unglingastarf sem félagið hefur haldið úti um árabil ofan á það höfum við síðan verið að byggja öflugt faglegt starf, bæta umgjörð og aðstöðu og efla deildina á öllum sviðum. Það er þetta stanslausa starf að bæta okkur dag frá degi sem skilar þessum árangri,“ segir Flosi Eiríksson, formaður Breiðabliks vel sáttur með árangurinn í sumar.
Fagmenn fram í fingurgóma og fullir af ástríðu og eldmóði
Nú gerið þið breytingar á aðaþjálfurum beggja liða fyrir tímabilið. Þetta var fyrsta heila tímabil Halldórs Árnasonar með karlaliðið og einnig fyrsta ár Nik Chamberlain með kvennaliðið – þið virðist hafa tekið nokkuð góða ákvörðun með þessum ráðningum – mikið gæfuspor að ráða þá? ,,Algerlega. Þeir eru báðir algerlega frábærir, fagmenn fram í fingurgóma og fullir af ástríðu og eldmóði. Sú gæfa að hafa svona þjálfara sem ýta á okkur stjórnarmenn og aðra að gera enn betur og leiða okkur. Þessar ráðningar báðar frábærar og við vonum að þeir verði hjá okkur í mörg ár.“
Halldór var eiginlega einn á blaði
Nú varð samkomulag í fyrra á milli stjórnar Breiðabliks og Óskar Hrafns Þorvaldssonar þjálfara karlaliðsins að hann léti af störfum í miðri riðlakeppni Sambandsdeildarinnar og þið gerið strax þriggja ára samning við Halldór Árnason, sem hafði verið aðstoðarþjálfari liðsins frá 2019. Kom aldrei neitt annað til greina en að ráða Halldór og á hvaða forsendum? ,,Hann var langefstur á blaði, og eiginlega á einn á því blaði, hjá meistaraflokksráðinu og okkur í stjórninni. Við þekktum afar vel til hans starfa undanfarin ár og vorum viss um að Halldór væri rétti maðurinn ti að taka okkur áfram.“
Án sjálfboðaliða og stuðningsmanna getum við ekki haldið upp þessu öfluga starfi
En þessi frábæri árangur karla- og kvennaliðsins byggist sjálfsagt ekki eingöngu á þjálfarateymum liðanna og leikmönnum, það hljóta margir að koma að og hjálpta til svo að umgjörðin í kringum liðið sé sem best? ,,Starf knattspyrnudeildarinnar er náttúrulega að stórum hluta borið uppi af gríðarlegum fjölda sjálfboðaliða,og ég held að margir geri sér ekki grein fyrir öllum þeim handtökum og verkum sem þarf að sinna í kringum liðin og leiki, þetta eru náttúrulega stjórn og ráð, allt það góða fólk sem starfar í kringum framkvæmd leikja, flaggar og vinnur og sjoppunni og svo framvegis. Án sjálfboðaliða og stuðningsmanna getum við ekki haldið upp þessu öfluga starfi og því má aldrei gleyma.“
Miklar tekjur og mikill kostnaður
Og svo tútnar buddan sjálfsagt eitthvað út með þessum titlum og þátttöku í forkeppni meistaradeildarinnar að ári? ,,Auðvitað koma inn tekjur við að að taka þátt í Evrópuleikjum en það fellur líka til mikill kostnaður. Stelpurnar sýndu það í forkeppninni að þær eiga fullt erindi í Evrópu og auðvitað er markmiðið að gera betur þar á næsta ári. Strákarnir þekkja betur til á þessu sviði og með því að vera Íslandsmeistarar fáum við eitthvað þægilegri leið með möguleikum sem við ætlum að grípa,“ segir hann og bætir við: ,,Það gefur leikmönnum og félaginu öllu mikið að spila á þessu stóra Evrópusviði, þar ruddum við brautina, þar eigum við heima og þar ætlum við að vera.“
Velta knattspyrnudeildar var í heild sinni 1 milljarður króna í fyrra
En kostar þetta ekki mikið, að eiga karla- og kvennalið í fremstu röð, hversu dýr er rekstur knattspyrnudeildar og hvert sækja menn aurana til að halda þessu öfluga starfi gangandi? ,,Þetta er afar umfangsmikill rekstur, og það má nefna að í fyrra velti knattspyrnudeildin í heild sinni um 1. milljarði króna, reyndar á aðeins sérstöku ári. Það skiptir miklu máli í svona rekstri að halda vel utan um öll fjármál og fara eins vel með fjármuni og hægt er. Barna- og unglingastarfið er fjármagnað af æfingagjöldum og frístundastyrk frá Kópavogsbæ og styrkjum og fjáröflunum. Það fer ekki króna úr þeim rekstri til þess að fjármagna meistaraflokka og frekar að þeir taki á sig ákveðna kostnaðarliði sem tengjast uppeldisstarfinu. Meistaraflokkar eru svo reknir á styrkjum og framlögum, tekjum af sölu leikmanna og greiðslum fyrir þátttöku í mótum og evrópukeppni. Við höfum lagt áherslu á að hafa jafnvægi í okkar rekstri og vera sjálfbær til framtíðar og það má til dæmis benda á að knattspyrnudeildin ber engar skuldir. Hluti af rekstarumgjörðinni er náttúrulega okkar frábæra aðstaða sem Kópavogsbær leggur félaginu til og erum við þakklát bæjaryfirvöldum og öllum íbúum fyrir þann stuðning og samstarf.“
Fótboltinn í heild sinni er að færast nær atvinnumannaumhverfi og er það góð þróun
Mega liðin í efstu deildinni fara að kúpla sig aðeins niður þegar kemur að launum leikmanna og þjálfara eða erum við alltaf að færast nær atvinnumannadeild? ,,Það skiptir mestu máli þegar kemur að launamálum almennt er að það sé samhengi milli tekna og gjalda og reksturinn sé í jafnvægi til lengri tíma þó auðvitað séu alltaf einhverjar sveiflur. Fótboltinn í heild sinni er að færast nær atvinnumannaumhverfi og er það góð þróun, við þurfum þó að gæta að því að ungir leikmenn fái tækifæri og eitt af því sem gerir Breiðablik af því sem við erum er sá stóri hluti leikmanna sem er uppalin hér hjá okkur, það gefur eitthvað auka og býr líka til aðra tenginu við stuðningsmennina en um leið erum við afar glöð að fá frábæra leikmenn annars staðar frá sem vilja spila fyrir Breiðablik.“
Komin á kaf í undirbúningi fyrir næsta tímabli
Þið verðið sjálfsagt að fagna þessum titlum eitthvað inn í veturinn, en hvernig er með framhaldið og næsta ár – menn ákveðnir að halda sama dampi, Breiðblik er og verður stórveldi? ,,Ef ég þekki mitt fólk, þjálfarana Halldór og Nik, þeirra teymi og aðra í kringum félagið, þá eru þau nú þegar komin á kaf í undirbúning fyrir næsta tímabli, byrjuð að skoða leikmenn og skipuleggja æfingar og undirbúning. Árangur sem þessi vinnst ekki bara á vellinum sjálfum yfir sumarið heldur með gríðarlegum undirbúningi og standslausri vinnu allt árið. Núna vona ég að okkar fólk taki sér smá frí áður en þau mæta aftur í Smárann, til að gera eins vel og hægt er næsta sumar og halda Breiðabliki á þeim stað sem við viljum vera á.“
Höfum við átt afar gott samstarf og fengið mikinn stuðning frá bæjaryfirvöldum og ýmsum velunnurum
Og það eru að verða töluverðar breytingar hjá ykkur þegar kemur að aðstöðumálum, en það er verið að leggja nýjan gervigrasvöll við hliðina á Fífunni, þetta hlýtur að breyta miklu fyrir félagið? ,,Við búum svo vel að hafa um 1900 iðkendur í fótbolta hjá Breiðabliki en um leið kallar það á góða aðstöðu – núna er verið að bæta við gervigrasvelli við hlið Fífunar sem mun breyta mjög miklu fyrir okkur og gera kleyft að yngri flokkar æfi þar yfir veturinn – félagið mun þá hafa yfir að ráða 4 gervigrasvöllinum, þar af einum innan dyra, en við gætum alveg notað einn eða tvo í viðbót! Knattspyrnudeildin er að taka í notkun aðstöðu fyrir þjálfara yngri flokka til að bæta það starf enn frekar, við höfum nýlega opnað verslun á félagssvæðinu og fleira mætti telja. Stóra verkefnið framundan er að fá öflugri lýsingu á Kópavogsvöll svo við, og önnur lið, getum spilað Evrópuleiki við bestu aðstæður. Í öllum þessu aðstöðumálum höfum við átt afar gott samstarf og fengið mikinn stuðning frá bæjaryfirvöldum og ýmsum velunnurum. Við treystum og vitum að svo verði áfram.“
Markmiðið er að halda áfram að vera besta félag á Íslandi
Og hver er svo markmið formannsins fyrir næsta ár – hvað kröfur gerir hann til liðanna hérna heima og í forkeppni meistaradeildarinnar? ,,Ég set svo sem engar sérstakar kröfur á mitt fólk, markmiðið er að halda áfram að vera besta félag á Íslandi, hvort sem horft er til árangurs, uppeldis- og æskulýðsstarfs eða reksturs. Liðin setja sjálf á sig kröfur og markmið en það sem við getum verið viss um að okkar leikmnenn halda áfram að vera frábær og sjálfum sér og okkur til sóma innan vallar sem utan.“
Viljum vera uppeldis- og afreksfélag í besta skilningi
Og er framtíðin björt hjá Breiðablik, við töluðum um sjálfbærni þegar kemur að rekstri félagsins, fjárhagnum, en þarf ekki endurnýjun leikmanna að vera svolítið sjálfbær, þ.e.a.s. að leikmenn úr yngri flokkunum skili sér upp í meistarflokkana? ,,Breiðablik hefur ávallt byggt sína leikmannahópa af stórum hluta upp af uppöldum leikmönnum og ætlum að halda því áfram, við viljum bæði gefa okkar iðkendum möguleika á að spila með sínu félagsliði en einnig að opna fyrir þeim möguleika á að spila erlendis í atvinnumennsku. Við viljum vera uppeldis- og afreksfélag í besta skilning og það er áframhaldandi skemmtilegt verkefni að halda því jafnvægi eðlilegu,“ segir formaðurinn að lokum sem getur ekki annað en verið sáttur með magnað tímabil Breiðabliks.
Forsíðumynd: Örn Örlygsson, formaður Blikaklúbbsins, Flosi formarður knattspyrnudeildar og Birna Hlín Káradóttir varaformaður knattspyrnudeildar