Breiðablik hefur svo leik í efri hluta Bestu deildarinnar í dag er Skaginn kemur í heimsókn á Kópavogsvöll, en leikurinn hefust kl. 19:15.
Kópavogspósturinn heyrði hljóðið í fyrirliðanum, Höskuldi Gunnlaugssyni og spurði hann nánar um úrslitakeppnina sem er framundan, en eins og bæjarbúar vita þá er það í höndum Breiðabliks að koma heim í Kópavoginn með Íslandsmeistaratitilinn.
Hvernig líst fyrirliðanum, Höskuldi Gunnlaugssyni, fyrirliða Breiðabliks á komandi úrslitakeppni og stöðuna á Blikaliðinu í dag? ,,Já, það er bara nokkuð gott og ekki mikið af skakkaföllum í liðinu eins og staðan er í dag, sem er af því góða. Það er bara full tilhlökkun og mikil spenna í mannskapnum,“ segir Höskuldur.
Má ekki segja að sjálfstraustið og stemmningin í liðinu sé nokkuð góð, liðið ósigrað í síðustu 9 leikjum í deildinni, 7 sigrar og tvö jafntefli – heitasta liðið í dag ef svo má að orði komast? ,,Já, það er flottur taktur í þessu hjá okkur og við erum bara fullir sjálfstrausts og það sést inn á vellinum. Það er mikill og góður karakter í liðinu sem hefur einkennt okkur í þessum frammistöðum og við ætlum bara að halda uppteknum takti áfram.“
En ertu sáttur með spilamennskuna ykkar í sumar og sérstaklega seinni part móts eftir að þið komust á þetta góða skrið – breyttist þá eitthvað í leik liðsins? ,,Nei, það er ekkert sem hægt er að taka út fyrir sviga og nefna. Við duttum bara inn á gott ,,run“ og færðum okkur upp um einn gír. Það var aðeins talað um það svona framan af móti að við værum á pari, frammistöðurnar vissulega góðar og við að ná í úrslit, en við ættum samt einn eða jafnvel fleiri gíra inni. Mér finnst við hafa sótt í þá og þá hafa menn einnig verið að komast í betra form og einhvern veginn hafa hlutirnir hægt og bítandi verið að smella betur saman hjá okkur. Leikur liðsins er því í nokkuð góðu flæði í dag,“ segir hann og bætir við hvað spilamennskuna varðar sumar þá sé hann nokkuð sáttur. ,,Það er ekki hægt að segja annað en við séum nokkuð sáttir heilt yfir með sumarið. Þetta er að ég held næst mesta stigasöfnun sem Breiðablik hefur náð í sögunni í 22 leikjum þannig að það er frábært og einnig að Dóri (þjálfari) sé gera það á sínu fyrsta ári sem aðalþjálfari og slá þar með met Heimis Guðjónssonar í stigasöfnun fyrir þjálfara á sínu fyrsta ári er ótrúlega vel gert. Þannig að við getum ekki kvartað og það er mikilvægt að viðhalda þessu góða formi síðustu fimm leikina, og það er það sem við fókusum á.“
Eins og staðan er fyrir úrslitakeppnina að þá stefnir í gott einvígi við Víkinga um Íslandsmeistaratitilinn, eruð þið klárir í þann slag og reiknar þú með af eigin reynslu að það gæti haft áhrif á Víkinga að vera að spila í Sambandsdeildinni á sama tíma? ,,Við erum svo sem ekki mikið að velta þessum síðasta leik í mótinu fyrir okkur á móti Víking. Á undan honum eru fjórir hörkuleikir við fjögur góð lið og fyrsti leikurinn verður á móti Skaganum á Kópavogsvelli næsta sunnudag. Það getur margt gerst fram að lokaleiknum í mótinu hjá báðum liðum þannig að það þýðir ekkert að vera að horfa á hann. Ég skil það þó vel að það er mikil eftirvænting í öllu fótboltasamfélaginu eftir mögulegum úrslitaleik þar sem allt er undir og mikil háspenna. Það yrði vissulega gaman að fá að taka þátt í slíkum leik sem leikmaður, en við þurfum bara að sjá til þess fyrst og fremst að vera í eins góðri stöðu og við getum þegar að þeim leik kemur. Svo það er bara gamla góða klisjan, að það er bara einn leikur í einu og næsti leikur er við Skagann,“ og bætir við: ,,Hvað varðar þátttöku Víkings í Sambandsdeildinni þá er þetta ákveðin og fjölbreytt upplifun, ert að etja kappi við ólík lið á ólíkum völlum og löndum, en þátttakan í þessari deild þarf alls ekki að finna á móti manni þótt leikjálagið verði meira.“
Það á margt eftir að gerast fyrir þann leik eins og þú segir og fyrsti leikur ykkar í úrslitakeppninni er á móti ÍA á Kópavogsvelli. Leikirnir við þá í Bestu deildinni voru jafnir, 1-1 á Kópavogsvelli og þið sigruðu 2-1 upp á Skaga. Þetta verður alvöru leikur? ,,Já, vissulega og við stilltum þessum leik um síðustu helgi á móti HK í raun upp eins og úrslitakeppnin væri hafin, en Skaginn er með hörkulið og búið að gera vel í sumar. Leikirnir á móti þeim í sumar hafa verið mjög erfiðir og ég held í raun, sama hver mótherjinn er í þessari úrslitakeppni í ár að þá verður aldrei dauð stemmning í neinum leik því það eru öll liðin að berjast um eitthvað, Íslandsmeistaratitil eða sæti í Evrópukeppninni. Svo þetta verður bara frá úrslitakeppni, skemmtileg fyrir alla bæði leikmenn og alla knattspyrnuáhugamenn.“
En Blikar eru allir upp til hópa stemmdir fyrir úrslitakeppninni og það hlýtur að vera góð tilfinning að hafa þetta í sínum höndum? ,,Jú, þetta er ákveðin fríðindastaða að vera í, að vera að keppa um Íslandsmeistaratitilinn þegar þetta langt er liðið á mótið og getað ráðið sínum eigin örlögum,“ segir fyrirliði Breiðabliks að lokum, en leikurinn við ÍA hefst kl. 19:15 á mánudaginn.