Það er eitthvað sérstakt við að finna kraftinn koma aftur

Félagsstarf eldri borgara í Kópavogi er miklum blóma um þessar mundir enda mörg fjölbreytt námskeið í boði í félagsmiðstöðvunum þremur, Boðanum, Gjábakka og Gullsmára í vetur og vor.

Tinna Rós Finnbogadóttir er umsjónarmaður félagsstarfs eldri borgara í Kópavogi og Kópavogspósturinn forvitnaðist nánar um starfið.

Og það er ágætt að byrja að spyrja Tinnu Rós að því hvernig starfið hafa gengið fyrir áramót? ,,Haustið fór af stað af miklum krafti enda fyrsta haustið í langan tíma án samkomutakmarkana. Það hefur skilað sér í góðri mætingu og öflugu starfi. Starfið hefur verið gefandi, mikið af nýjum andlitum og frábært listafólk sem hefur gefið mikið af sér og fengið lof fyrir sitt framlag þetta haustið,” segir Tinna Rós og bætir við: ,,Það er eitthvað sérstakt við að finna kraftinn koma aftur sem fylgir aukinni aðsókn fólks á stöðvarnar.”

Tinna Rós t.v. ásamt forseta Íslands, Guðni Th. Jóhannessyni og Amöndu K. Ólafsdóttur deildarstjóri frístunda- deildar hjá Kópavogsbæ er Guðni heimsótti félagsmiðstöðina Gjábakka

En fyrir hverja er starfið sem þú heldur utan um og mega allir taka þátt? ,,Félagsmiðstöðvarnar eru þrjár í Kópavogi og mikilvægt að halda úti öflugu félagsstarfi í nærumhverfi íbúa bæjarins. Starfið sem fer fram er fyrir alla þó áhersla sé lögð á þarfir eldri borgara. Það ber þó að hafa í huga að eldri borgarar eru stór fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir og áhugamál, því er mikilvægt að starfið sé fjölbreytt svo það nái að uppfylla þarfir og áhugmál sem flestra.”

Þannig að í boði er fullt af fjölbreyttum námskeiðum? ,,Já, líkt og áður segir eru eldri borgarar ekki einsleitur hópur og því er fjölbreytileiki ávalt að leiðarljósi þegar starfið er skipulagt, eins eru áhugamál sífellt að breytast þó að fastir tímalausir liðir breytast seint. Mest sótta starfið er spilamennskan, hreyfingin, handavinnan s.s prjónahópar, tréútskurður, postulín og fleira. Svo er hin óformlega dagskrá í mat og kaffi alltaf vel sótt þar sem tíminn er nýttur til að eiga spjall í notalegu umhverfi. Það verður seint of oft kveðið að hvetja nýtt fólk til að líta við þó ekki sé nema til að sýna sig og sjá aðra. Ófá vinasamönd hafa myndast yfir kaffispjalli á félagsmiðstöðvunum.”

Hver eru svo vinsælustu námskeiðin ár hvert, breytist það ekkert á milli ára? ,,Við í Kópavogi erum óhrædd að prófa nýja hluti, sumt virkar, annað ekki. Nýlega hefur Qigong slegið í gegn, en enn er mest sótta starfið bundið í tímalaus áhugamál líkt og í spilakvöldum, prjónahópum og hreyfingu.”

En þurfa þátttakendur sem taka þátt á námskeiðum að vera með einhverja þekkingu t.d. ef þeir velja glernámskeið, listmálun eða trésmíði eða er kennt alveg frá grunni? ,,Flest námskeið sem byrja að hausti taka tillit til reynsluminni aðila og því um að gera að prófa nýja hluti þó þekking eða reynsla sé ekki mikil. Það er engu að tapa og svo margt að græða, ekki síst góðan félagsskap.”

Og svo hef ég heyrt af góðri stemmningu spilahópunum, bæði verið að spila bridge, félagsvist, skák og fleira? ,,Þessi hópar eru alltaf vel skipaðir góðu fólki og stemningin eftir því. Við hvetjum þó ávallt áhugasama að kynna sér þessa hópa og skoða möguleikann að slást í hópinn.”

Svo er fjölbreytt íþróttastarf í boði, gott fyrir alla að hreyfa sig? ,,Hreyfing vitum við öll hvað getur gert okkur gott, bæði líkamlega og andlega. Æfingarnar eru alltaf til þess fallnar að vera við hæfi allra og því ætti enginn að láta framhjá sér fara að mæta í jóga, línudans, Qigong eða leikfimi.”

En hvað þarf að gera til að mæta og vera með? ,,Númer eitt, tvö og þrjú er að mæta á staðinn, á hverri stöð er starfandi frístundaleiðbeinandi sem getur kynnt starfið, dagskrána og hjálpað öllum að fin-na eitthvað við sitt hæfi.”

Og svo eru félagsmiðstöðvarnar alltaf opnar síðdegis og þangað geta allir mætt bara til að spjalla og fá sér kaffibolla og meðlæti? ,,Kaffið hressir, bætir og kætir, þar er fjölbreyttur hópur sem mætir reglulega og alltaf má sjá ný og ný andlit bætast við. Það er því ein öruggasta leiðin að brjóta ísinn og kanna aðstæður að mæta í kaffið, njóta samveru við það frábæra fólk sem þar má finna en ekki síður til að fá sér kaffimeðlæti gegn vægu gjaldi sem stelpurnar í eldhúsinu galdra fram af sinni alkunnu snilld,” segir Tinna Rós og bætir við: ,,Ég vil nýta þetta tækifæri til að þakka öllum fyrir samstarfið á sl. ári, en um leið viljum við bjóða öllum áhugasömum velkomna í félagsmiðstöðvarnar á nýju ári.”

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar