Um árabil hefur fyrirhuguð tenging Vorbrautar frá Hnoðraholti í Garðabæ yfir í Þorrasali í Kópavogi verið töluvert hitamál hjá íbúum í Þorrasölum sem og golfspilurum þar sem vegurinn á að ligga milli Þorrasala og golfvallar GKG. Áhyggjur hafa verið miklar af aukinni umferð við heimilin sem og golfvöllinn ef vegurinn verði lagður samkvæmt gildandi deiliskipulagi.
Nú liggur fyrir umsögn Kópavogsbæjar sem styðst við nýtt faglegt mat VSÓ Ráðgjafar sem Kópavogsbær óskaði eftir og bendir til þess að hægt sé að fella tenginguna út og láta Vorbraut enda sem botnlanga án þess að það hafi teljandi áhrif á umferðaröryggi eða afkastagetu á svæðinu.
2.500–3.000 bíla umferð myndi dreifast á aðra kosti
Samkvæmt samgöngulíkani höfuðborgarsvæðisins, sem VSÓ greindi, gæti umferð á Vorbraut numið 2.500–3.000 ökutækjum á sólarhring ef vegurinn næði til Arnarnesvegar. Sleppi tengingunni myndi þessi umferð dreifast á aðrar leiðir, Arnarnesveg og Vífilsstaðaveg og mat VSÓ er að það hafi engin marktæk áhrif á umferðaröryggi eða heildarflæði á svæðinu.
Óveruleg áhrif á ferðatíma – og hljóðstig innan marka
Íbúar við enda Vorbrautar þyrftu að aka um tvo kílómetra lengra (u.þ.b. 2,5 mínútur) til austurs verði vegurinn botnlangi, en VSÓ telur þann tímasparnað vænan í samanburði við neikvæð áhrif tengingarinnar. Um leið sýna hljóðútreikningar að með breyttri legu Vorbrautar væri hljóðstig undir mörkum, svo ekki þyrfti að setja upp hljóðvarnir, jafnvel með veginn ofanjarðar.
Minni áhrif á hús og golfvöll
Í umsögn skipulagsfulltrúa Kópavogs kemur fram að ný tenging við Þorrasali gæti haft neikvæð sjónræn og hljóðræn áhrif á hús við Þorrasala 1–3 auk þess að skerða svigrúm golfvallarins í Vetrarmýri. Botnlangalausn dragi úr þessum áhrifum og samræmist betur núverandi skipulagsmarkmiðum sveitarfélagsins.
Safngata flytur hluta umferðarinnar
Í rammahluta aðalskipulags Garðabæjar er jafnframt gert ráð fyrir nýrri safngötu norðan golfvallar, sem samkvæmt spá gæti tekið allt að 1.800 bíla á sólarhring. VSÓ bendir á að sú gata sé talin henta betur sem tengileið fyrir gegnumakstur og minnki enn frekar þörfina fyrir Vorbrautartenginguna við Þorrasala.
Kópavogsbær kallar eftir faglegri endurskoðun
Á grundvelli niðurstaðna VSÓ leggur Kópavogsbær fast að Garðabæ að skoða botnlangakostinn af fullri alvöru áður en deiliskipulag Vetrarmýri og Smalaholts verður samþykkt. Í umsögn sinni segir Kópavogsbær að tengingin feli í sér „fleiri ókosti en kosti“ og að hagkvæmni, tímasparnaður og öryggisáhrif séu óveruleg miðað við ónæðið sem íbúar og nærliggjandi starfsemi yrðu fyrir.
Hvað gerist næst?
- Skipulagsvinnan heldur áfram: Garðabær fer nú yfir umsagnir og athugasemdir áður en endanleg tillaga verður lögð fyrir bæjarstjórn.
- Íbúar geta lagt orð í belg. Fyrirhuguð deiliskipulagsbreyting er enn í opinberu ferli og Kópavogsbær hvetur íbúa, sérstaklega í Þorrasölum, til að fylgjast með og senda inn sín sjónarmið.
- Samráð milli sveitarfélaga. Bæði bæjarfélög hafa lýst vilja til að vinna málið faglega og finna lausn sem þjónar hagsmunum heildarinnar án þess að skerða lífsgæði íbúa.

Íbúar Þorrasala hafa lengi bent á að tenging Vorbrautar myndi auka umferð, hávaða og næði í hverfinu. Með nýju mati VSÓ og formlegri umsögn skipulagsfulltrúa Kópavogs eru íbúar Þorrasala vongóðir um að endanleg niðurstaða verði í samræmi við þau sjónarmið.
Spurningin er hvernig Garðabær bregst við, en nú þegar hefur byggingarlóðum verið úhlutað í norður og miðsvæðis í Hnoðraholti og framkvæmdir eru hafnar þar sem gert er ráð fyrir að Vorbraut tengist Þorrasölum.
Hvað segir Hjördís, formaður skipulagsnefndar Kópavogs, telurðu að hægt verði að ná sátt við Garðabæ um þessa útfærslu og er hún til góðs bæði fyrir íbúa í Þorrasölum og verðandi íbúa í Hnoðraholti? ,,Já við erum bjartsýn á að það sé hægt að leysa málið í góðri sátt enda eru niðurstöður VSÓ mjög afgerandi og því frábærar fréttir fyrir ekki bara íbúa Kópavogs heldur einnig verðandi íbúa Garðabæjar sem og golfara GKG,“ segir hún.