Tæplega 3000 stúlkur á Símamótinu

Hið árlega Símamót Breiðabliks verður haldið með pompi og prakt dagana 7. – 10. Júlí. Mikil eftirvænting er meðal þeirra tæplega 3.000 þátttakenda sem koma frá öllum landshornum til að taka þátt á mótinu sem er orðinn einn af hápunktum sumarsins hjá ungum fótboltastelpum.
„Þetta verður alveg frábært mót í ár eins og áður. Við höfum núna skipt mótinu upp eftir flokkum þannig að 11-12 ára stúlkur keppa í Fagralundi en 6-10 ára keppa á völlunum í Smáranum og á Kópavogsvelli. Svo erum við líka búin að bæta við Litla-Símamótinu inni í Fífunni þar sem yngstu stelpurnar 3-5 ára fá að spreyta sig.“ segir Ísleifur Gissurarson, deildarstjóri barna- og unglingastarfs knattspyrnudeildar Breiðabliks.

Mikill viðbúnaður er í kringum mótið enda búist við fjölda gesta í Kópavoginn. Til að mynda er Kópavogstúnið við Þinghól nýtt sem tjaldsvæði fyrir mótsgesti og götunni við Furugrund breytt í einstefnugötu frá austri til vesturs til að stýra betur umferð við Fagralund. „Símamótið er stórt og fjölmennt og sem betur fer eigum við gott samstarf með Kópavogsbæ og starfsfólkinu þar sem leggur sitt af mörkum við að undirbúa þessa hátíð. Við erum einnig afar þakklát bæjarbúum sem hafa í gegnum árin tekið vel á móti þessum fjölda gesta enda eru Kópavogsbúar framar öðru framúrskarandi gestgjafar!“

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar