Sundstarfið í Kópavogi með því öflugasta á landinu

Sunddeild Breiðabliks hefur átt velgengni að fagna undanfarin ár, og er nú eitt af þremur sterkustu liðum landsins. Í desember varð liðið í öðru sæti á Bikarmeistaramóti Sundsambands Íslands í fyrstu deild og í fyrra endaði kvennalið Breiðabliks sem sigurvegari á sama móti. Deildin hefur rakað inn Íslandsmeistaratitlum í einstaklingsgreinum undanfarin ár, og þar æfa topp íþróttamenn eins og Freyja Birkisdóttir, sem þrátt fyrir að vera aðeins 16 ára, hefur tekið þátt í ýmsum landsliðsverkefnum og tryggði sér í desember bronsverðlaun á Norðurlandameistaramótinu í sundi í Bergen í 800 metra skriðsundi.

Arna Þórey Sveinbjörnsdóttir þjálfari ársins hjá Breiðabliki

Arna Þórey Sveinbjörnsdóttir var nú á dögunum valin þjálfari ársins í Breiðablik, en það er mikil viðurkenning á hennar starfi, sérstaklega þar sem ýmsar aðrar deildir félagsins hafa einnig náð frábærum árangri á síðasta ári. Arna hefur verið yfirþjálfari sunddeildarinnar í 10 ár, en hún og eiginmaður hennar Karl Pálmason þjálfa elsta hóp sundmannanna. Auk þess hefur Arna þjálfað marga yngri hópana, og kennt á sundnámskeiðum deildarinnar sem hafa skilað miklum árangri og notið vinsælda. ,,Að hafa yfirþjálfara sem sinnir þjálfun á breiðu sviði og puttann á púlsinum á heildarstarfinu hefur reynst okkur vel,” segir Magnús Konráðsson formaður, og bætir við að þau hjónin hafa starfað með deildinni af ástríðu. Auk þess er deildin með fleiri hæfileikaríka og efnilega þjálfara á sínum snærum. Magnús bætir við að ekki síður mikilvægur þáttur er hversu vinsamlegt og hvetjandi andrúmsloft ríkir milli iðkenda og félagsskapurinn er aðdráttarafl á æfingar.
Arna Þórey tekur fram að það sé vissulega áskorun að ná árangri í samkeppni við öflug sundfélög sem hafa kjöraðstæður til æfinga, en einn af lykilþáttunum í þjálfunaraðferðum Sunddeildar Breiðabliks sé að markvisst forðast álagsmeiðsli, sem hefur tekist vel.

Markmið starfsins eru margvísleg. Magnús bendir á að vissulega sé æft til að ná bætingum og sigrast á markmiðum. ,,Það er gjarnan eldsneytið í starfinu, en önnur grunngildi séu jafnvel í heildina enn mikilvægari. Þegar fyrrverandi sundmenn, jafnvel verðlaunarhafar á Ólympíuleikum séu spurðir að því hvað sé það mikilvægasta sem íþróttin hafi skilið eftir í lífinu, séu ekki endilega mínúturnar á verðlaunapallinum taldar til, heldur frekar félagskapurinn, þroskaferlið, og sá skóli lífsins sem sundíþróttin veitir.”

Í því samhengi leggur deildin áherslu á þessa þætti í starfinu, og í bland við æfingar og hefðbundin sundmót séu til dæmis haldnir Blikaleikar, með óhefðbundnum greinum, þar sem áhersla er lögð á leikgleði og samheldni meðal iðkenda. Sundíþróttin er góður ferðafélagi alla ævina. Foreldrar eru mikilvægar fyrirmyndir að minnsta kosti yngri iðkenda, og áhugi foreldra á íþróttinni er lykilatriði hvað varðar hugarfar og hvatningu. Það er því nýnæmi hjá deildinni að bjóða upp á sundæfingar fyrir fullorðna, sem miðast að því að henta foreldrum að stunda æfingar samhliða iðkendum.”

Boðsund með þjálfara í eftirdragi á Blikaleikum

Stöðug uppbygging á starfseminni í gangi

,,Það eru spennandi tímar framundan hjá deildinni og stöðug uppbygging á starfseminni í gangi. Nýlega gengu til liðs við deildina tveir þjálfarar af pólskum uppruna með góða menntun og reynslu auk þess sem þeir eru til fyrirmyndar sem íþróttamenn sjálfir. Sundsamband Íslands valdi nýlega unga og efnilega sundmenn frá öllu landinu í Framtíðarhóp SSÍ, en þessum sundmönnum bjóðast ýmiss tækifæri á vegum sundsambandsins til að eflast innan íþróttarinnar. Sunddeild Breiðabliks á þar annan stæsta hópinn og útlitið bjart framundan hjá deildinni,” segir Magnús.

Forsíðumynd: Keppnishópur Sundblika í æfingaferð á Tenerife

Eggjasund á Blikaleikum
Sundlaug Kópavogs í Blikaskrúða
Bliki stingur sér til sunds

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar