Sumarlestur hefst á Bókasafni Kópavogs

Bókasafn Kópavogs býður upp á sumarlestur fyrir grunnskólabörn, sérstaklega ætlað börnum í 1. – 6. bekk og elstu börnum leikskólanna. Ótrúlega mikilvægt er að viðhalda þeirri lestrarfærni sem áunnist hefur yfir skólaárið og er sumarlesturinn flott tækifæri til að hvetja börn til að halda áfram að æfa sig yfir sumartímann. 

Í ár hefst sumarlesturinn þriðjudaginn 23. maí og stendur til 22. ágúst. Fá börnin lestrardagbók afhenta í skólanum sínum og skrá þátttöku í sumarlesturinn inni á síðunni sumarlestur.is. Eftir hverjar þrjár lesnar bækur fá þátttakendur happamiða á bókasafninu eða á sumarlestur.is. Happamiðarnir eru síðan settir í pott og vinningshafi er dreginn út í hverri viku í allt sumar.

Hin árlega uppskeruhátíð sumarlesturs verður haldin hátíðleg áður en skólarnir hefjast að nýju.

,,Við hlökkum mikið til að taka á móti sumarlestrarhestum í sumar! Verið velkomin,” segir Kolbrún Björk Sveinsdóttir, verkefnastjóri fræðslu og miðlunar á Bókasafni Kópavogs.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar