Sumarlestur fullorðinna á bókasafninu – Leslyndi

Af hverju ættu börnin að sitja ein að kræsingunum í sumar? ,,Við á Bókasafni Kópavogs blásum í annað sinn til sumarlesturs fullorðinna; Leslyndis! Til mikils er að vinna því vikulega verður einn leslyndur þátttakandi, sem sent hefur inn umsókn, dreginn út og frábær bókaverðlaun í boði. Svo það er ekki bara frelsið til að fá að lesa eða heiðurinn af því að taka þátt, þetta er keppni og samfélag og hamingja,” segir Íris Dögg Sverrisdóttir, bókavörður á Bókasafni Kópavogs ,,Við renndum blint í sjóinn í fyrrasumar með Leslyndið en fengum svo frábærar viðtökur að við endurtökum leikinn. Leslyndið er einfalt, skráning er á vefsíðu bókasafnsins þar sem þátttakendur skila einnig inn umsögnum um þær bækur sem lesnar eru í sumar og úr þeim er vinningshafi vikunnar dreginn. Við verðum virkari en bikiníklæddir áhrifavaldar á sundlaugabakkanum á Instagram-reikningi safnsins (þar heitum við einfaldlega bokasafnkopavogs) og birtum þar upplýsingar um nýjar bækur og umsagnir leslyndra félaga í allt sumar. Þá er lifandi póstlisti með enn fleiri bókum og enn fleiri bókaumsögnum leslyndra ásamt vinningshöfum sumarsins. Við viljum þannig búa til fallegt samfélag leslyndra sem aðstoðar hvert annað við að finna næstu bók til að lesa en á sama tíma æsa fólk upp í samkeppni um verðlaun vikunnar,” segir hún og bætir við: ,,Án alls glens þá eru þrjár leiðir til að taka þátt: Keppandinn, klappliðið og áhorfandinn. Keppandinn tekur virkan þátt og sendir inn umsagnir. Klappliðið skráir sig til leiks og fer á póstlistann og vaktar Instagram. Áhorfandinn fylgist bara með á Instagram. Allt eru þetta góðar leiðir til að taka þátt í okkar dásamlega samfélagi leslyndra. Við hlökkum til að lesa með ykkur í sumar. Áfram allt þið leslynda fólk,” segir Íris Dögg brosandi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar