Styrktarsjóður Önnu K. Nordal styrkir Herdísi Mjöll um eina milljón króna

Fiðluneminn Herdís Mjöll Guðmundsdóttir hlaut í síðustu viku eina milljón króna styrk úr Styrktarsjóði Önnu K. Nordal. Styrkurinn var afhentur við formlega athöfn í Salnum í Kópavogi í gær.
 
Dómnefnd sjóðsins, skipuð Magnúsi Ragnarssyni, Gyðu Stephensen, Hildigunni Halldórsdóttur og Páli Palomares, völdu umsókn Herdísar úr hópi sjö mjög hæfra umsækjenda.
 
Herdís hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar og verðlaun þrátt fyrir ungan aldur, meðal annars vann hún konsertkeppni Oberlin Conservatory 2020 og Kaufmannverðlaunin fyrir framúrskarandi fiðlunema við útskrift úr Oberlin Conservatory 2021. Herdís lýkur um þessar mundir meistaranámi frá Yale School of Music.  

Um Styrktarsjóð Önnu K. Nordal
Sjóðurinn var stofnaður af vestur-íslenskri konu, Önnu Karólínu Nordal sem fæddist í Kanada árið 1902 og lést 1998.  Markmið sjóðsins er að styrkja efnilega söng- og fiðlunema. Anna bjó alla tíð í Kanada og kom aldrei til Íslands en hafði sterkar taugar til landsins og sýndi Íslendingum mikla ræktarsemi. Hún nam tónlist í St. Mary´s Academy, kaþólskum nunnuskóla í Winnipeg auk þess sem hún lagði stund á píanó- og orgelleik í Saskatoon, en hún var um tíma organleikari í báðum íslenskum kirkjunum í Gimli.  
 
Sjóðurinn hefur styrkt fjölda framúrskarandi tónlistarmanna. Meðal þeirra má nefna Sigrúnu Eðvaldsdóttur, Gissur Pál Gissurarson, Bjarna Frímann Bjarnason og Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur.
 
Stjórn Styrktarsjóðs Önnu K. Nordal skipa Magnús Ragnarsson, Hans Júlíus Þórðarson og Aino Freyja Jarvela.
 
Á hópmynd eru talin frá vinstri: Hans Júlíus Þórðarson, Herdís Mjöll Guðmundsdóttir, Magnús Ragnarsson og Aino Freyja Järvelä

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar