Styrkleikamerki að veltufé frá rekstri sé rúmlega tveir og hálfur milljarður króna

Árshlutareikningur Kópavogsbæjar 2024 var lagður fram í bæjarráði Kópavogs í síðustu viku.
 
Viðsnúningur er á rekstri frá fyrra ári en rekstrarniðurstaða samstæðu Kópavogsbæjar fyrri hluta árs 2024 er jákvæð um 528 milljónir króna, gert hafði verið ráð fyrir rekstrarhalla upp á 318 milljónir króna og afkoman því um 840 milljónir krónum betri en áætlun gerði ráð fyrir.  

Rík áhersla hefur verið á að forgangsraða fjármunum í grunnþjónustu en hagræða á sama tíma 

„ Rekstur Kópavogsbæjar er sterkur og 840 milljónum króna umfram áætlanir. Afkoman er jákvæð þrátt fyrir þráláta verðbólgu og háa vexti. Þá er verulegt styrkleikamerki að veltufé frá rekstri sé rúmlega tveir og hálfur milljarður króna sem er lykiltala í ársreikningi og það svigrúm sem reksturinn gefur til að standa undir framkvæmdum og afborgunum lána. Fjárhagsstaða Kópavogsbæjar byggir á traustum grunni þar sem rík áhersla hefur verið á að forgangsraða fjármunum í grunnþjónustu en hagræða á sama tíma. Áfram verður staðið vörð um traustan rekstur og góða þjónustu við bæjarbúa,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.
 
æjarSamkvæmt uppgjörinu er rekstrarniðurstaða A-hluta er jákvæð um 451 milljón króna  á fyrri helmingi ársins 2024 en áætlun gerði ráð fyrir rekstrarhalla að fjárhæð 370 milljónir króna. Veltufé frá rekstri samstæðu er rúmlega 2,5 milljarðar. Framlegð samstæðu er rúmir 4 milljarðar á misserinu eða 14,8% af tekjum samstæðunnar en 11,9% ef framlag til lífeyrisskuldbindinga er talið með sem breytilegur kostnaður. Tekið er tillit til hlutdeildar Kópavogsbæjar í rekstri hlutdeildarfélaga Sorpu, Strætó og slökkviliðsins í þessum tölum.  

Tekjufærð byggingarréttargjöld 600 milljónir króna á fyrri hluta árs

Verðbólga fyrri hluta árs var hærri en gert hafði verið ráð fyrir og eru fjármagnsgjöld því hærri en hafði verið áætlað. Á móti kemur að tekið er tillit til úthlutunar byggingarlóða meðal annars í Vatnsendahvarfi í þessu uppgjöri og eru tekjufærð byggingarréttargjöld 600 milljónir króna á fyrri hluta árs.   
 
Árshlutareikningurinn sem nær yfir tímabilið 1.janúar til 30.júní 2024. Reikningurinn er óendurskoðaður og ókannaður en gerður í samræmi við lög og reglugerðir, en þó þannig að ekki eru samdar sérstakar skýringar við hann aðrar en samandregin greinargerð. Árshlutareikningurinn er notaður til að kanna hvernig rekstur hefur verið að þróast á árinu og hann myndar grunn að útkomuspá bæjarins fyrir árið 2024 sem er grunnur að fjárhagsáætlun næsta árs.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar