Stuðla að farsælli öldrun – Heilsuefling fyrir 60 ára og eldri

Virkni og Vellíðan er verkefni á vegum Kópavogsbæjar í samstarfi við íþróttafélögin þrjú, Breiðablik, Gerplu og HK sem miðar að heilsueflingu fyrir 60 ára og eldri í Kópavogi. Þátttakendur sem skráðir eru í verkefnið fá tækifæri á því að stunda hreyfingu í því félagi sem stendur næst heimili þeirra í Kópavogi. Helsta markmið verkefnisins er að stuðla að bættri líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu bæjarbúa og stuðla jafnframt að farsælli öldrun.

Í sumar hefur Virkni og Vellíðan verið með útiæfingar á dagskrá alla miðvikudaga, þær hafa verið á hinum ýmsu útivistarsvæðum í bænum. Hópurinn hefur meðal annars tekið göngu frá Lindakirkju, Digraneskirkju, Salalaug, um Kópavogsdalinn og Kópavogstún, í Guðmundarlundi, um Vífilstaðarvatn, hjá Geðræktarhúsinu og fleira. Þessar æfingar hafa verið vel sóttar en þátttakendur hafa verið frá 50 – 100 manns í hvert skipti. Hópurinn hefur svo sest niður og fengið sér kaffi/vatn og spjall í lok æfingar. Þessar æfingar eru opnar öllum Kópavogsbúum og þarf að- eins að mæta á auglýsta upphafsstaði. Auglýsingar fara fram á fésbókarsíðu Virkni og Vellíðan. Þessum æfingum er stjórnað af þjálfurum frá Virkni og vellíðan og verður áherslan lögð á göngu. Æfingar verða þar til hefðbundnar æfingar hefjast aftur í haust en æfingar hefjast mánudaginn 21. ágúst.

Hægt er að hafa samband eða skrá sig í verkefnið með því að senda póst á [email protected] eða í gegnum fésbókarsíðu verkefnisins.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar