Stóraukið framboð húsnæðis og hjúkrunarrýma í Kópavogi sem svar við brýnni þörf

Bæjarráð Kópavogs samþykkti sl. fimmtudag að senda áfram til samþykktar bæjarstjórnar drög að viljayfirlýsingu við Aflvaka Þróunarfélag um uppbyggingu 5.000 íbúða lífsgæðakjarna á jörðinni Gunnarshólma sem liggur norðan við Suðurlandsveg, skammt austan við Hólmsheiði og Rauðavatn. Þá er einnig gert ráð fyrir allt að 1.200 hjúkrunarrýmum á svæðinu þegar það er fullbyggt.

Um er að ræða jörð sem er í eigu Aflvaka Þróunarfélags og innan bæjarmarka Kópavogs, en bærinn á einnig sjálfur mikið land á umræddu svæði. Svæðið er utan núverandi vaxtarmarka höfuðborgarsvæðisins en farið verður í viðræður við nágrannasveitarfélögin um breytingu á þeim. Viljayfirlýsingin verður tekin fyrir á næsta fundi bæjarstjórnar Kópavogs, 13.febrúar næst-komandi.

Fyrirhugað uppbyggingarsvæði fellur sem áður segir utan núverandi vaxtarmarka höfuðborgarsvæðisins og kallar á breyt-ingar á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Grundvallarforsenda þess að ráðist verði í uppbyggingu er að vatns-vernd sé í engu ógnað.

Þá er gert ráð fyrir að heilbrigðis- og öldrunarþjónustan sem byggð verður upp á svæðinu mun þjóna höfuðborgarsvæðinu og landinu öllu.

Kópavogspósturinn heyrði í Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra og spurði hana nánar um verkefnið.

Það þarf stórátak í uppbyggingu á húsnæði og þjónustu fyrir fólk á efri árum

Hvernig sérðu fyrir þér hver áhrifin gætu orðið á þá heilbrigðis- og öldrun- arþjónustu sem nú er í boði og þá þörf sem er framundan? ,,Á næstu 15 árum mun 65 ára og eldri fjölga um 70% og 80 ára og eldri tvöfaldast. Öllum er ljóst að það þarf stórátak í uppbyggingu á húsnæði og þjónustu fyrir fólk á efri árum. Þessi fjölgun felur í sér áskoranir sem snúa að heilbrigðis- og öldrunarmálum. Við gerum ráð fyrir að byggðar verði 5.000 íbúðir á svæðinu auk 1200 hjúkrunarrými en það jafngildir um helmingi þeirra hjúkrunarrýma sem fyrirséð er að muni vanta á höfuðborgarsvæðinu á næstu 15 árum. Ef af þessum áformum verður þá er ljóst að Kópa- vogsbær er svo sannarlega að stíga mikilvægt skref í að leysa ýmsar áskoranir sem snúa að öldrun þjóðar,” segir Ásdís.

Um er að ræða nýjan valkost

Hvaða þýðingu hefur þessi fyrirhuguða uppbygging fyrir Kópavog, aldurssamsetningu íbúa og framboð húsnæðis? ,,Hugmyndin er að þarna verði byggt upp lífsgæðasamfélag sem er sérstaklega sniðið fyrir 60 ára og eldri, það er fólk sem er á þriðja og fjórða æviskeiðinu. Til að mæta aukinni þörf er mikilvægt að tryggja fjölbreyttari búsetumöguleika og þjónustu fyrir þennan hóp og er hér um að ræða nýjan valkost. Þessi uppbygging kallar ekki endilega á breytta aldurssamsetningu í Kópavogi því eldri bæjabúar sem kjósa að búa á Gunnarshólma flytja úr sínum fyrri fasteignum sem stuðlar þá að auknu framboði fyrir t.a.m. barnafjölskyldur svo dæmi séu tekin. Áhrifin yrðu því fyrst og fremst aukið framboð húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu. Ef áformin ganga eftir þá er Kópavogsbær ekki aðeins að stíga mikilvægt skref í að auka framboð hjúkrunarrýma á höfuðborgarsvæðinu heldur samhliða að stórauka framboð íbúðar-húsnæðis og mæta þannig þörfum ungra sem og eldri kaupenda á húsæðismarkaði.”

Mynd: Landið Gunnarshólmi er innan hvítu línunnar og töluvert fyrir utan vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins sem eru merkt mað grænblárri punktalínu

Ekki verið að flytja neinn í byrtu frá byggð

Sú gagnrýni hefur komið fram að verið sé að flytja eldra fólk í burtu frá annarri byggð, hvað segir þú um þá gagnrýni? ,,Ég er alls ekki sammála þeirri nálgun. Í fyrsta lagi þá er ekki verið að flytja neinn í burtu frá byggð, heldur eru áform um að bjóða uppá nýja og fleiri valkosti fyrir þennan fjölbreytta hóp. Margir myndu segja að þetta væri frábær valkostur fyrir eldri bæjarbúa. Áfram verða hjúkrunarheimili rekin innan núverandi vaxtamarka og áfram verða íbúðir byggðar fyrir alla aldurshópa í ólíkum hverfum Kópavogs. Ljóst er að þörfin er mikil og svæði innan vaxtamarka munu ekki mæta henni að öllu leyti. Miklu meira þarf til. Áform okkar um að byggja 1.200 hjúkrunarrými á Gunnarshólmi eru aðeins 50% af væntri þörf næstu árin, önnur 1200 hjúkrunarrými þarf að byggja á öðrum svæðum innan höfuðborgarsvæðisins,“ segir hún.

Verslanir og heilsukjarni

Verður gert ráð fyrir uppbyggingu grunn- þjónustu á svæðinu, leikskóla og skóla ásamt verslun og þjónustu? ,,Nei, það er ekki gert ráð fyrir leik- og grunnskólum á svæðinu enda er svæðið fyrst og fremst hugsað fyrir fólk á þriðja og fjórða æviskeiðinu. Aftur á móti er gert ráð fyrir verslunum ásamt ýmiss konar þjónustu til dæmis heilsukjarna þar sem starfrækt verður heilsuhús og nýsköpunarmiðstöð með áherslu heilbrigðara líf, félagsskap, útiveru og afþreyingu.”

Gert er ráð fyrir að einkaaðilar sjái um uppbyggingu hjúkrunarheimila á svæðinu

Gerið þið ráð fyrir að ríkið muni taka þátt í kostnaði við uppbyggingu og reksturs á þeim 1200 hjúkrunarrýmum sem gert er ráð fyrir á svæðinu? ,,Stjórnvöld kynntu nýverið breytingar á uppbygg- ingu hjúkrunarheimila, í stað þess að þau séu byggð upp og fjármögnuð að öllu leyti af ríki og sveitarfélögum þá er nú horft til þess að einkaaðilar sjái um slíka uppbyggingu og fjármögnun. Þessi áform ríma við stefnu stjórnvalda þar sem gert er ráð fyrir að einkaaðilar sjái um uppbyggingu hjúkrunarheimila á svæðinu. Reksturinn verður jafnframt í höndum einkaaðila eins og tíðkast á öðrum hjúkrunarheimilum en að sjálfsögðu áfram með fjárframlögum frá ríkinu. Kópavogsbær kemur ekki að uppbyggingu né rekstri hjúkrunarheimila.”

Hafa átt í viðræðum við uppbyggingaraðila í rúmlega ár

Hvað er langt síðan þessi hugmynd að uppbyggingu í Gunnarshólma kom fyrst til tals hjá ykkur í Kópavogi? ,,Það liggur mikil vinna að baki hugmynd sem þessari og við höfum átt í viðræðum við uppbyggingaraðila í rúmlega ár. Málið fór hins vegar ekki í formlegt ferli fyrr en nýverið þegar viljayfirlýsingin fór fyrir bæjarráð, en hún verður afgreidd á næsta fundi bæjarstjórnar þann 13 febrúar.”

Má gera ráð fyrir að það taki eitt til tvö ár að afla viðeigandi leyfa áður en framkvæmdir geta hafist

Nú er ljóst að um er að ræða mjög stórt og metnaðarfullt verkefni. Hverjar eru stærstu áskoranirnar og hvenær teljið þið raunhæft að fyrsta skóflustungan verði tekin og framkvæmdir hefjast? ,,Já, við erum ákaflega stolt af þessu verkefni fyrir hönd Kópavogsbæjar því hér er verið að mæta brýnni þörf með nýrri nálgun. Fyrirhugað uppbyggingarsvæði fellur utan núverandi vaxtamarka höfuðborgarsvæðisins og kallar því á breytingar á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins sem við þurfum að ræða við nágrannasveitarfélögin. Þá þarf að huga vandlega að umhverfis- og vatnsverndarmálum samhliða þeirri skipulagsvinnu sem þarf að fara fram. Þetta mun allt taka sinn tíma og það má gera ráð fyrir því að það taki eitt til tvö ár að afla viðeigandi leyfa áður en framkvæmdir geta hafist sem gætu tekið um átta ár. Ef allt gengur upp er hér verið að stórauka framboð húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu og framboð hjúkrunarrýma sem ber að fagna enda þörfin mikil,” segir Ásdís.

Teljum þetta raunhæft verkefni annars værum við ekki á þessari vegferð

En telur þú í raunhæft að af þessu verkefni verði þar sem þetta er bæði fyrir utan vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins, sem gilda til ársins 2040 og þá er þetta á vatnsverndarsvæði sem hefur að geyma vatnsból alls höfuðborgarsvæðsins? ,,Já, að sjálfsögðu teljum við þetta verkefni raunhæft annars værum við ekki á þessari vegferð. Talsverð undirbúningsvinna hefur þegar átt sér stað,” segir hún að lokum.

Mikil reynsla af uppbyggingu stórhuga þróunarverkefna

Teymið á bakvið þróunarverkefnið er með mikla reynslu af stórum nýsköpunarverkefnum, meðal annars í heilbrigðistækni. Framkvæmdastjóri Aflvaka Þróunarfélags er Sigurður Stefánsson fyrrum fjármálastjóri CCP og í stjórn félagsins eru þeir Birgir Már Ragnarsson og Andri Sveinsson eigendur fjárfestingafélagsins Omega ehf., sem átti yfir 10% hlut í Kerecis sem selt var fyrir 180 milljarða á dögunum. Andri Sveinsson var stjórnarformaður Kerecis og Birgir Már Ragnarsson er núverandi stjórnarformaður Sidekick Health. Þeir eru jafnframt eigendur Grósku hugmyndahúss. Í stjórn Aflvaka Þróunarfélags situr einnig Guðmundur J. Oddsson sem jafnframt er stjórnarmaður í Sidekick Health.

Eins og áður segir er ætlað er að uppbygging á svæðinu muni taka um átta ár eftir að viðeigandi leyfi hafa fengist og að fyrsta áfanga verði lokið á tveimur til þremur árum.

Forsíðumynd: Viljayfirlýsing handsöluð F.v.Orri Hlöðversson formaður bæjarráðs, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs, Sigurður Stefánsson framkvæmdastjóri Aflvaka Þróunarf<élags og Andri Sveinsson, stjórnarmaður í Aflvaka Þróunarfélagi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar