Stóra stundin runnin upp – úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn á morgun

Það er spennandi laugardagur framundan fyrir þá grænklæddu í Kópavogi, en þá fer fram hreinn úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn í Bestu-deild kvenna á milli Breiðabliks og núverandi Íslandsmeistara Vals. Leikurinn fer fram á heimavelli Vals að Hlíðarenda og hefst hann kl. 16:15. Það þarf vart að minnast á hversu mikilvægt það er fyrir Blikastúlkur að fá góðan stuðning úr stúkunni.

Ást Eir Árnadóttir er fyrirliði Breiðabliks og hún segir mikla tilhlökkun á meðal leikmanna liðsins fyrir leiknum? ,,Það er mikil tilhlökkun og gaman að vera í þessari stöðu sem við erum í,“ segir Ásta.

Þið hafið verið sjóðandi heitar í úrslitakeppni Bestu deildarinnar undanfarnar vikur og unnið alla fjóra leikina með töluverðum yfirburðum, þið hafið skorað rúmlega 4 mörk að meðaltali í leik en aðeins fengið á ykkur eitt mark að meðaltali. Það er ekki hægt að segja annað en þið komið í ykkar besta formi í úrslitaleikinn við Val eða hvað? ,,Já það er góður taktur í liðinu og það hefur gengið vel að undanförnu. Fyrst og fremst er gaman hjá okkur og við erum að njóta þess mikið að spila leikina.“

Má ekki segja að leikur liðsins hafi styrkst verulega með komu systur þinnar, Kristínar og Samönthu Rose og þá er Agla komin í leikform að nýju eftir meiðsli, þið hafið eiginlega verið að eldi síðan? ,,Jú, það má alveg segja það. Kristín hefur komið vel inn í vörnina og hefur einnig verið mikilvægur hlekkur í sóknarleiknum. Svo hefur innkoma Sammy verið frábær, hún er ótrúlega góður leikmaður og hefur passað mjög vel inní liðið og sama má segja um Öglu María, það hefur verið ótrúlega gott fyrir okkur að fá hana aftur. Hún er náttúrulega fyrirmyndar íþróttamaður og hugsaði vel um sig í meiðslunum og það kemur mér ekkert á óvart hversu vel hún hefur komið til baka.“

Valskonur hafa ekki verið jafn sannfærandi í úrslitakeppninni, unnið tvo af þrjá leikjum með einu marki og gert eitt jafntefli – það segir sjálfsagt lítið fyrir þennan stórleik á laugardaginn eða hvað? ,, Já, ég held það skipti engu máli. Valur er með gríðarlega góða leikmenn og við þurfum að eiga okkar besta leik á laugardag til að ná í góð úrslit.“

Og nú reynir virkilega á liðið og hausinn – eru þið undirbúnar fyrir það og þetta verður væntanlega allt annar leikur en hinir leikirnir fjórir í úrslitakeppninni? ,,Ég myndi ekki segja allt annað, við höfum horft á alla leikina í úrslitakeppninni sem úrslitaleiki. En jú við þurfum vissulega að vera með hausinn rétt stilltan og mæta tilbúnar.“

En hvernig er staðan á liðinu – Birta Georgs komin í hópinn eftir meiðsli og eru þá allir heilir fyrir leikinn á laugardaginn? ,,Staðan er góð! Allir leikmenn heilir og tilbúnir í slaginn.“

Breytir einhverju að leikurinn fer fram á Hlíðarenda, heimavelli Vals? ,,Nei það finnst mér ekki, það er alltaf gaman að spila á Hlíðarenda og ég efast ekki um að Blikar muni fjölmenna á laugardaginn. Stuðningurinn skiptir svo miklu máli, við fundum það einmitt í síðasta leik þegar rúmlega 500 manns mættu á leikinn. Það var gaman að sjá og vonandi getum við tvöfaldað þann fjölda á laugardaginn.“

Þið urðuð síðast Íslandsmeistarar árið 2020 – er ekki kominn tími á Íslandsmeistaratitilinn lendi í Smáranum, mikið hungur til staðar hjá leikmönnum og félaginu? ,,Jú auðvitað er mikið hungur í okkur. Við viljum alltaf vinna titla, stundum tekst það og stundum ekki. En það er allvega klárt að við munum leggja allt í leikinn og ætlum okkur að sækja titilinn heim í smárann.“

Og hver er lykillinn að sigra Breiðabliks á laugardaginn? ,,Gleði, barátta og samstaða.,“ segir fyrirliðinn að lokum en Breiðablik nægir jafntefli í leiknum til að hampa Íslandsmeistaratitlinum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar