Stóðu sig hreint út sagt frábærlega

Þann 6. mars síðastliðinn voru haldnir uppskerutónleikar í Háskólabíói þar sem allar þrjár hljómsveitir sem starfa undir merkjum Skólahljómsveitar Kópavogs komu fram og sýndu afrakstur vetrarins. Ljóst var strax frá fyrstu tónum yngstu hljóðfæraleikaranna að mikil vinna liggur að baki hjá krökkunum og þau stóðu sig hreint út sagt frábærlega. Það hlýtur líka að vera mjög gaman að spila í svona stórum sal fyrir fjölda áhorfenda sem voru vel með á nótunum þennan sunnudagseftirmiðdag.

Nokkrir eldri hljóðfæraleikarar SK tóku líka þátt í gleðinni með yngstu krökkunum og smelltu sér upp á svið til að dansa með ABBA-laginu Mamma Mia. Næsta hljómsveit á svið, B sveitin, hélt sig á ljúfum nótum og spilaði meðal annars bítlalög og stef úr kvikmyndinni Godfather. Það getur verið mjög vandmeðfarið að spila rólegar ballöður og þessir ungu hljóðfæraleikarar tókust mjög vel á við þá áskorun og skiluðu sínu af einstakri fagmennsku.

Síðust á svið var C sveit SK skipuð elstu nemendunum og var þeirra efnisskrá jafnframt viðamest. Sérstaka athygli vakti flutningur lagsins Free Running sem tileinkað var baráttu úkraínsku þjóðarinnar fyrir frelsi og réttlæti. Mjög áhrifaríkt og kröftugt verk með skýr skilaboð. Einnig fengu léttari tónar að óma frá C sveitinni á borð við sveiflutónlist Glenn Miller og suðurameríska takta gítarleikarans Carlos Santana. Það væri glæsilegt að sjá þessa fjölmennu sveit sem skipuð er hvorki meira né minna en 75 hljóðfæraleikurum leika listir sínar á sviðinu og fylla heilt Háskólabíó af magnaðri tónlist.

Á tónleikunum voru einnig veittar viðurkenningar til lengst komnu nemenda og fengu þær Aldís María Einarsdóttir, Helga Fanney Þorbjarnardóttir og Katla Freysdóttir afhent sérstakt viðurkenningarskjal ásamt heiðursnafnbót fyrir frábæra frammistöðu í SK í tíu ár.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar