Stendur vörð um hagsmuni Kópavogs

 Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, skrifaði í síðustu viku grein um svonefndan Samgöngusáttmála, sem undirritaður var árið 2019. Þar er um að ræða viljayfirlýsingu ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu samgangna. Með sáttmálanum var ákvörðun tekin um að ráðast í ríflega 52 milljarða króna fjárfestingu í ellefu stofnvegaframkvæmdum, 50 milljarða króna fjárfestingu í borgarlínu og fimmtán milljarða í hjóla- og göngustíga auk búnaðar í umferðastýringu, svo dæmi séu tekin.  
   
Eins og kemur fram í grein Ásdísar gerir hún sér eðlilega grein fyrir mikilvægi samgangna og nauðsyn þess að byggja upp skilvirkt samgöngukerfi. ,,Það breytir þó ekki því að á hverjum tímapunkti er nauðsynlegt að staldra við, endurmeta stöðuna og tryggja að sú leið sem er farin sé í senn skynsöm, ábyrg og hagkvæm,“ segir Ásdís í greininni og bendir á að í ljós hafi komið að framkvæmdaáætlun Samgöngusáttmálans sé þegar komin tugi milljarða fram úr áætlun, þó framkvæmdir séu varlahafnar. ,,Stokkur við Sæbraut er ein framkvæmdanna sem nú er metin ríflega fimmtán milljarða umfram upphaflega áætlun, bara sí-svona eitt verkefni! Brýnt er að kanna hvort slíkar vanáætlanir eigi við önnur verkefni sáttmálans.
Það er engin trygging fyrir því að verkefnið fari ekki enn frekar fram úr áætlunum, og ef sagan segir okkur eitthvað, er líklegt að við munum sjá þessar upphæðir hækka enn frekar þegar framkvæmdir fara af stað.  Ef svo er þarf að taka ákvörðun í tíma um hvernig skuli bregðast við því,“ segir Ásdís.   

Kópavogspósturinn spurði því Ásdísi um næstu skref og hvort hún vildi að Samgöngusáttmálann yrði endurskoðaður í heild sinni ef önnur verkefni væri komin langt fram úr áætlun eins og í ljós hefur komið með fyrirhugaðan stokk við Sæbraut? ,,Samgöngusáttmálinn er samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, verkefnið er brýnt fyrir Kópavogsbúa enda snýr sáttmálinn að uppbyggingu samgangna á svæðinu. Nú þegar liggur fyrir að frávik frá upphaflegri áætlun eru eins miklar og raun ber vitni og efnahagsforsendur hafa á sama tíma breyst þarf að staldra við, endurmeta áætlanir og forgangsraða verkefnum. Við viljum auðvitað tryggja áframhaldandi uppbyggingu samgangna en um leið að fyllsta aðhaldi sé gætt í meðferð fjármuna til verkefnisins. 

Úr 120 milljörðum í 170 milljarða

Þegar Samgöngusáttmálinn var undirritaður 2019 var gert ráð fyrir um 52 milljarða króna fjárfestingu í ellefu stofnvegaframkvæmdum, 50 milljarða króna fjárfestingu í borgarlínu og fimmtán milljarða í hjóla- og göngustíga auk búnaðar í umferðastýringu, svo dæmi séu tekin. Hver var áætlaður kostnaður Kópavogsbæjar við Samgöngusáttmálann við undirritun og hver er hann í dag ef Samgöngusáttmálinn sé kominn tug milljarða fram yfir upphaflega áætlun? ,,Við upphaflegu áætlun var gert ráð fyrir að sveitarfélögin leggðu 15 milljarða til verkefnisins sem á sínum tíma stóð í 120 milljörðum króna en er nú kominn í 170 milljarða, mestu munar um verulega vanáætlun er snýr að stokk við Sæbraut auk þess sem verðlagsforsendur hafa breyst. Hlutur Kópavogsbæjar miðast við íbúafjölda en ekki liggur fyrir hvernig breyttar forsendur hafa áhrif á sveitarfélögin. Þetta er fljótt að telja einkum þegar frávikið er eins mikið og raun ber vitni og framkvæmdir eru vart hafnar.“ 
 
Í samkomulaginu stendur skýrt að ef forsendur breytast eiga aðilar sem að samkomulaginu standa að hefja viðræður eins skjótt og kostur er um hvernig eigi að bregðast við. Ég tel að sú staða sé komin upp og vænti þess að ríki og sveitarfélög setjist nú niður og ræði næstu skref.“  

Mikilvægt að áætlanir standi

En hver er fjárhagsstaða Kópavogsbæjar, getur bærinn endalaust dælt inn fjármagni í verkefnið ef það fer langt fram úr áætlun eða mun það á endanum bitna á þjónustu við bæjarbúa í Kópavogi, hækkun á þjónustugjöldum og frekari lántöku bæjarins?   ,,Meirihlutinn í Kópavogi er með skýra stefnu um að standa vörð um grunnþjónustu bæjarins og stilla gjöldum og álögum í hóf, frá því verður ekki vikið. Fjárhagsstaða Kópavogs er sterkari en í mörgum öðrum sveitarfélögum enda hefur verið staðið vörð um ábyrgan rekstur undanfarin ár, segir Ásdís og bætir við: ,,Erfitt efnahagsumhverfi, hækkandi vextir og aukin verðbólga hefur hins vegar litað rekstur bæjarins og því má lítið út af bregða. Þess þá heldur er mikilvægt þegar svona gríðastórar framkvæmdir eru fram undan eins og Samgöngusáttmálinn að við getum treyst því að áætlanir standi en ef forsendur breytast að þá verði brugðist skjótt við. 

Arnarnesvegurinn er gríðarlega mikilvæg framkvæmd

Hver er ávinningur Kópavogsbæjar af samgöngusáttmálanum? Í honum er m.a. gert ráð fyrir fjárfestingu í ellefu stofnvegaframkvæmdum og ein þeirra, hið minnsta, snýr beint að Kópavogsbúum, en það er síðasti áfangi Arnarnesvegar, frá Rjúpnavegi, yfir Vatnsendahæð og að Breiðholtsbraut. Þessi framkvæmd er metin á um 5 milljarða, stendur sú áætlun ennþá og eru fleiri stofnvegaframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir sem snúa beint að Kópavogi í Samgöngusáttmálanum?  ,,Markmiðið með Borgarlínunni er að almenningssamgöngur verði raunhæfur valkostur fyrir fleiri íbúa. Það er vissulega ávinningur fyrir Kópavogsbúa sem og aðra höfuðborgarbúa ef tekst að draga úr bæði umferð og mengun,“ segir hún og heldur áfram: ,,Þær framkvæmdir sem snúa að stofnvegum í landi Kópavogs eru einna helst Arnarnesvegurinn og Fossvogsbrúin. Arnarnesvegurinn er gríðarlega mikilvæg framkvæmd fyrir íbúa efri byggða en mikil umferðastífla er að myndast þar á hverjum degi, á morgnana og síðdegis. Þá mun Fossvogsbrúin tengja Kársnesið við miðbæ Reykjavíkur og mun klárlega vera lyftistöng fyrir Kópavog og svæðið í heild.“  

Almennur samhljómur að staldra við

Og ætlar þú sem sagt fara fram á það á næstu dögum við ríkið og fulltrúa þeirra fimm sveitarfélaga sem standa að sáttmálanum með Kópavogi að fjárfestingin verði endumetin og uppfærð og staðan svo tekin með framhald verkefna í huga út frá nýrri fjárhagsáætlun?  ,,Ég get ekki betur séð en að það sé almennur samhljómur um mikilvægi þess að staldra við og ræða breyttar forsendur og hvernig eigi að bregðast við. Væri eðlilegt næsta skref og í samræmi við það samkomulag sem var undirritað á sínum tíma,“ segir Ásdís að lokum.    

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar