Fjölmennt var á opnun málverkasýningar listamannsins Steinþórs Marinó Gunnarssonar í Boðaþingi í síðustu viku. Hátt í 200 gestir mættu á opnuna til að samgleðjast með Steindóri, sem fagnaði 97 ára afmæli sl. sumar og geri aðrir betur. Steinþór hefur málað alla tíð síðan hann man eftir sér og haldið fjölda sýninga, en hann hefur m.a. notið kennslu og tilsagnar þjóðkunnra listamanna í gegnum árin.
Steinþór er fæddur 18. júlí 1925 á Ísafirði og ólst upp á Suðureyri við Súgandafjörð til 10 ára aldurs, er fjölskyldan flutti til Akraness. Þar kynnist hann nýjum jafnöldrum og umhverfi. Þessi klettótta, sæbarða strönd, svarrandi brim og skeljasandur umhverfis Skagann varð honum strax í æsku hugleikið viðfangsefni til myndgerðar og jókst er árin liðu, en hann hefur málað alla tíð síðan hann man eftir sér. Að eigin sögn ætlaði hann fyrst að verða garðyrkjumaður þegar hann varð yngri, en pensillinn varð yfirsterkari og vakti meiri áhuga.
Þegar Steinþór varð tvítugur, árið 1945, hóf hann nám í málaraiðn er fjölskyldan flutti til Reykjavíkur og starfaði sem málarameistari alla tíð. Hugur hans hneigðist snemma til listmálunar, enda virðist það liggja í blóðinu, því hann er einn fimm albræðra af sjö sem fengust við þá listgrein. Á sumrin ferðaðist hann mikið og gerði skissur sem hann málaði síðar á vinnustofunni heima. Hans fyrsta einkasýning var í Reykjavík árið 1968.
Steinþór naut kennslu og tilsagnar þjóðkunnra listamanna, ásamt því að leita sér þekkingar á listasöfnum og myndlistarsýningum, jafnt á meginlandi Evrópu og í Norður-Ameríku. Hann hefur bæði haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum hér á landi og erlendis og hlaut einnig listamannalaun. Þá starfaði hann við leikmyndagerð 1976–1980 hjá Ríkissjónvarpinu, auk þess sem hann vann við gerð leikmynda hjá Norska ríkissjónvarpinu.
Steinþór flutti í Boðaþing fyrir 5 árum síðan. Málverkasýningin, sem er sölusýning, stendur til áramóta og eru allir velkomnir.
Forsíðumynd: Bræðurnir Gunnar til vinstri og Steinþór Marinó ásamt Jónínu konu Gunnars þegar málverkasýning Steinþórs var opnuð með formlegum hætti í Boðaþingi í síðustu viku.