Stefnt á að hefja úthlutun 2. áfanga í Vatnsendahvarfi í upphafi næsta árs – segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi

Í Vatnsendahvarfi er gert ráð fyrir 500 íbúðum í fjölbýli, par- og ráðhúsum og sérbýli og það var mikill áhugi þegar sex lóðir fyrir fjölbýlishús voru boðnar út í 1. áfanga í maí sl. og var eftirspurn langt umfram framboð.

Þá stóð til að bjóða út 2. áfanga í sumar og stefnt var á að úthluta þriðja og síðasta áfanga á þessu ári. Það hefur þó ekkert bólað á úthlutunum og Kópavogspósturinn spurði Ásdísi Kristjánsdóttir bæjarstjóra hver staðan væri – hvað tefur ferlið? ,,Við gerum fastlega ráð fyrir að hefja úthlutun í upphafi næsta árs. Í þessu samhengi er nú mikilvægt að hafa í huga að efnahagsumhverfið hefur ekki verið að vinna með okkur en samfara því sem vextir eru að lækka teljum við mikilvægt að klára sem fyrst úthlutun í Vatnsendahvarfi,“ segir Ásdís. 

Ásdís gerir fastlega ráð fyrir að hefja úthlutun 2. áfanga í Vatnsendahvarfi í upphafi næsta árs

Hefur engin áhrif á fjárhagsáætlun ársins 2024

Hefur þessi seinkun einhver áhrif á uppgjör fjárhagsáætlunar Kópavogsbæjar fyrir árið 2024? ,,Kópavogsbær gerir ekki ráð fyrir tekjum af úthlutun lóða í fjárhagsáætlun og því hefur það engin áhrif á áætlanir okkar þó úthlutun færist yfir á næsta ár. Við gerum ráð fyrir að úthlutun hefjist í byrjun næsta árs og munum auglýsa vel áður en til þess kemur. Í næsta áfanga munum við t.a.m. bjóða upp á einbýlis- og parhúsalóðir sem við vitum að beðið hefur verið eftir í Kópavogi. Við reiknum svo með að 3. áfangi fylgi svo í kjölfarið, væntanlega með vorinu. Úthlutunin er í takt við gatnagerðina þannig að það er samfella í uppbyggingunni, það tekur tíma að byggja upp hverfi af þessari stærðargráðu.“

Tryggt að skólinn verði tilbúinn þegar fólk flytur í hverfið

Og samkvæmt fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2025 þá ætlið þið að hefja undirbúning á nýjum leik- og grunnskóla í Vatnsendahvarfi?  ,,Undirbúningur fyrir nýjan skóla er hafinn og er að sjálfsögðu tryggt að hann verði tilbúinn þegar fólk flytur í hverfið,“ segir Ásdís en reiknað er með að hverfið verði fullbyggt 2027-2028.

,,Við eigum eftir að úthluta við Glaðheima og stefnum á úthlutun þess svæðis á árinu 2025,“ segir Ásdís.

Stefnt á að úthluta á Glaðheimasvæðinu á næsta ári

Svona til lengra tíma litið. Hvaða byggingasvæði eru þið að horfa til í náinni framtíð? ,,Kópavogsbær ólíkt mörgum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu á takmarkað landrými eftir til að brjóta nýtt land. Við eigum þó eftir að úthluta við Glaðheima og stefnum á úthlutun þess svæðis á árinu 2025. Þá stefnum við á að hefja skipulagsvinnu í Vatnsendahlíðinni árið 2026,“ segir Ásdís að lokum. 

Forsíðumynd: Gatnagerð í Vatnsendahvarfi fór af stað af fullum krafti í lok september sl.
 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar