Stærstu verkefni næsta kjörtímabils

Að mörgu þarf að hyggja eftir kosningarnar 14. maí. Verkefnin mörg og ærin eftir 32 ára nær óslitna valdasetu Sjálfstæðisflokkins í Kópavogi.

Þar má fyrst nefna að breyta þarf algerlega hugsunarhætti um uppbyggingu íbúða því það er eitt af skylduverkefnum sveitarfélaga að tryggja öllum húsnæði. Samfylkingin vill tryggja fólki í öllum tekjuhópum viðunandi húsnæði en hér í Kópavogi hallar verulega á þá sem hafa minni tekjur. Til þess að ná þessu markmiði vill Samfylkingina meðal annars úthluta að a.m.k. 20% af lóðum sem Kópavogsbær á til óhagnaðardrifinna byggingafélaga en það hefur ekki verið gert í tíð núverandi meirihluta. Við viljum líka byggja námsmannaíbúðir í Kópavogi og fleira má nefna. Þessu þarf að breyta á nýju kjörtímabili.

Íbúasamráð og íbúalýðræði er þessu nátengt en mikilvægt er að íbúar séu hafðir meira, betur og fyrr með í ráðum varðandi skipulag í þeirra nærumhvefi en ekki framselja skipulagsvaldið í hendur þóknanlegum verktökum eins og núverandi meirihluti hefur gert ítrekað.

Þá eru leikskólamálin áríðandi og þola enga bið en hér hefur ekki verið byggður leikskóli í átta ár þrátt fyrir fyrirsjáanlega fjölgun barna í bænum. Þessu þarf að breyta strax og spýta í lófa til að hægt sé að tryggja vistun að loknu fæðingarorlofi. Við viljum einnig færa leikskólann nær því að vera fyrsta skólastigið eins og hann er skilgreindur lögum.

Þá þarf að huga að menntamálum, íþróttum og tómstundum og velferðarmálum allra aldurshópa. Við viljum nútímavæða skipurit bæjarins og horfa til framtíðar um leið og við sýnum ábyrgð og ráðdeild í rekstri bæjarins.

Að lokum, nýtum kosningaréttinn okkar þann 14. maí. Zelensky Úkraínuforseti minntist á það í ávarpi sýnu til Alþingis í liðinni viku hvernig allt sé gert á Íslandi til að fólk geti lifað áhyggjulaust í lýðræði. Njótum þess, sendum góða strauma til nágranna okkar og vina og tökum þátt í lýðræðinu. Kjósum.

Bergljót Kristinsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar