Stækkun Tennishallarinnar undir sex nýja padelvelli samþykkt – bætir aðstöðu og skapar tækifæri fyrir alþjóðleg mót

Kópavogsbær hefur samþykkt stækkun Tennishallarinnar við Dalsmára 13 í samræmi við nýtt deiliskipulag og byggingaráform sem miða að því að bæta aðstöðu fyrir íþróttaiðkun og styrkja stöðu svæðisins sem miðpunkt fyrir tennis og padelíþróttina á Íslandi.

Með breytingunum munu sex nýir padelvellir rísa við hlið núverandi tennishallar, ásamt tengigangi, dvalarsvæði og setsvæðum fyrir spilara.

Helstu breytingar eru:

  • Sex nýir padelvellir byggðir í 2ja hæða byggingu.
  • Tengigangur úr gleri settur yfir núverandi brú milli eldri tennishallar og nýrrar viðbyggingar.
  • Skyggni og sorpgeymsla komið fyrir á suðurhlið húss.
  • Setsvæði og dvalarsvæði norðan og vestan við viðbyggingu fyrir leikmenn og gesti.
  • Grænt torfþak sem hluti af blágrænni lausn.

Samfélagsleg og íþróttaleg áhrif

Með viðbyggingunni verður Tennishöllin í Kópavogi stærsta aðstaða landsins fyrir padel og tennis, með aðstöðu sem uppfyllir kröfur alþjóðlegra keppna. Þessi uppbygging getur eflt mótahald, laðað til sín fleiri iðkendur og ferðamenn og stutt við heilsueflingu íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

Að auki verður unnið að því að tengja nýja dvalarsvæðið við leiksvæði austan við Tennishöllina og tryggja aðgengi fyrir alla.

Þetta er gríðarlega mikilvægt skref fyrir íþróttina – segir Jónas Páll Björnsson framkvæmdastjóri Tennishallarinnar

Eftir að bæjaryfirvöld í Kópavogi samþykktu nýlega stækkun Tennishallarinnar við Dalsmára 13, þar sem gert er ráð fyrir sex nýjum padelvöllum, tengigangi og betri aðstöðu fyrir áhorfendur og leikmenn, ríkir spenningur og bjartsýni hjá Tennishöllinni. Kópavogspósturinn settist niður með Jónasi Páli Björnssyni, framkvæmdastjóra Tennishallarinnar og ræddum áhrif þessa stóra verkefnis.

Jónas fyrir framan Tennishöllina þann 22. apríl sl. þar sem Padelhöllin mun rísa en fyrsta skóflustungan var tekin í gær.

Hver eru fyrstu viðbrögð ykkar við samþykktinni? „Við erum ótrúlega þakklát og ánægð með að bæjaryfirvöld hafi sýnt þessu verkefni skilning og stuðning. Þetta hefur verið í undirbúningi í þó nokkurn tíma og er mikilvægt bæði fyrir okkar starfsemi og fyrir padelíþróttina á Íslandi. Þetta gefur okkur tækifæri til að taka næsta stóra skref,“ segir Jónas.

Gerir okkur kleift að halda alþjóðleg mót hér heima og auka aðgengi almennings

Hvað mun stækkunin þýða í reynd fyrir Tennishöllina og notendur hennar? „Fyrst og fremst mun stækkunin auka aðgengi almennings og fleiri munu komast að í padel. Eftir stækkun verðum við með átta padelvelli. Hönnun Tennishallarinnar er öll mjög opin og auðvelt að fylgjast með því sem er að gerast. Andrúmsloftið er því þegar mjög skemmtilegt og ljóst að það verður enn skemmtiegra með nýjum iðkendum. Þetta gerir okkur einnig kleift að halda bæði innlend og alþjóðleg mót hér heima og bjóða upp á betri aðstöðu fyrir alla sem vilja spila – hvort sem þeir eru byrjendur, lengra komnir eða atvinnumenn. Við bætum líka við dvalarsvæði, setsvæðum og tengigangi sem tengir saman eldri og nýju byggingarnar, svo flæði og upplifun verður mun betri.“

Nútímaleg og glæsileg hönnun

„Padelvellirnir okkar tveir sem opnuðu á árinu 2019 voru í raun ákveðin tilraun sem hefur gengið framar vonum. Padel sprengjan svokallaða í heiminum hófst í Covid en við vorum búnir að opna fyrir þann tíma. Þegar við opnuðum fyrst árið 2007 vorum við tennisklúbbur en eftir að við stækkuðum árið 2019 höfum við einnig boðið upp á tvo padelvelli sem hafa náð miklum vinsældum. Nú tökum við næsta skref og verðum ekki bara öflugur tennisklúbbur heldur einnig mjög öflugur padelklúbbur,“ segir Jónas og heldur áfram: ,,Fyrirmyndin er að vissu leyti erlend nema ég tel að hönnuðurnir okkar þau Rebekka og Ellert hjá Former arkitekum séu í raun að færa hönnun á padelklúbbum upp á nýtt stig með þessari stækkun.
Íþróttin er ung og uppbyggingin t.d í Svíþjóð hefur verið mjög hröð. Þar voru menn að keppast við að koma klúbbum af stað í hinum og þessum byggingum t.d í gömlum verksmiðjum. Þessir klúbbar eru því margir soldið dimmir sem okkur finnst ekki heillandi.
Við höfum hins vegar verið með þetta verkefni í vinnslu og undirbúningi í að verða fjögur ár. Það hefur því verið markmiðið okkar að bygga bjartan og nýtískulegan klúbb sem þó verður með þeim eiginleikum að hægt sé að draga fyrir sólina þegar hún er sterk með sólvarnargleri og rafdrifnum gardínum.
Stjórnendur Kópavogsbæjar hafa mikinn metnað fyrir Kópavogsdalnum. Dalurinn er algjör perla og þeim hefur verið umhugað um náttúrulegt útlit hússins. Við erum sammála þessu sjónarmiði og ég tel að viö höfum komið á móts við það með mjög fallegri hönnun, þ.e grasi á þakinu, gluggum og fallegri viðarklæðningu. “

Padel ein hraðast vaxandi íþrótt heimsins og Ísland fylgir þeirri þróun

Hversu stór er padelíþróttin orðin á Íslandi og hvernig sérðu hana þróast? „Padel hefur sprungið út hér á landi á síðustu þremur til fimm árum. Þetta er ein hraðast vaxandi íþrótt heimsins og Ísland fylgir þeirri þróun. Ég held að vinsældir Padelíþróttarinnar séu bara rétt að byrja. Fólk sækir í íþróttina vegna þess að hún er félagsleg, skemmtileg og tiltölulega auðveld að læra. Hún er líka frábær hreyfing án þess að vera of líkamslega erfið þannig að hún hentar breiðum aldurshópi. Þetta er íþrótt fyrir alla.“

Sex nýir padelvellir

Styrkir ímynd Kópavogs sem íþróttabæjar og styður við heilsueflingu, félagslíf og atvinnulíf

Hvernig sjáið þið fyrir ykkur framtíð Tennishallarinnar með þessari viðbót? „Við verðum miðpunktur fyrir padel og tennis á höfuðborgarsvæðinu – og líklega á landinu öllu. Með betri aðstöðu getum við boðið upp á meiri fjölbreytni, betri þjónustu, betri námskeið og þjálfun og sterkari mót. Þetta styrkir líka ímynd Kópavogs sem íþróttabæjar og styður við heilsueflingu, félagslíf og atvinnulíf. Við hlökkum rosalega til að taka á móti gestum í nýju rýmunum.“

Markmiðið að byrjaði verði að leika á völlunum í ár

En hver eru svo næstu skref, hvenær hefjast framkvæmdir og hvenær ættu vellirnir að vera tilbúnir? ,,Við tókum fyrstu skóflustunguna í hádegi í gær, á sumardaginn fyrsta, samfara því hefjum við framkvæmdir við að flytja regnvatnslögn sem þarf að færa vegna framkvæmdanna. Markmiðið okkar er að hægt verði að byrja að spila á þessu ári.“

Þetta á að vera staður þar sem fólk kemur saman, hreyfir sig og hefur gaman

Að lokum, hvað vill Tennishöllin leggja áherslu á í þessari uppbyggingu? „Aðgengi, gæði og gleði. Þetta á að vera staður þar sem fólk kemur saman, hreyfir sig, fær sér hollan mat og drykk og hefur gaman. Hvort sem fólk kemur til að æfa af alvöru, spila með vinum eða prófa eitthvað nýtt þá viljum við bjóða upp á aðstöðu sem stenst allar kröfur og skilar góðri upplifun. Í raun er Tennishöllin félagsmiðstöð fólks á öllum aldri og við erum að gera Tennishöllina enn skemmtilegri“ segir Jónas, en stækkunin er mikilvægur áfangi í þróun íþróttaaðstöðu í Kópavogi og til marks um vaxandi vinsældir padelíþróttarinnar á Íslandi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins