Soroptimistar eru alþjóðleg samtök kvenna sem hafa það að markmiði að stuðla að jákvæðri heimsmynd, þar sem samtakamáttur kvenna nær fram því besta sem völ er á. Samtökin vinna að bættri stöðu kvenna, að mannréttindum öllum til handa sem og jafnrétti, framförum og friði með alþjóðlegri vináttu og skilningi að leiðarljósi. Soroptimistar vinna eftir Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og hafa það að höfuðmarkmiði að valdefla konur og stúlkur og berjast gegn kynbundnu ofbeldi.
Á hverju ári standa Soroptimistar fyrir átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Hér á landi höfum við kosið að kalla það „Roðagyllum heiminn“ (e. Orange the World). Litur þessa átaks er appelsínugulur og á hann að tákna von um bjartari framtíð án ofbeldis, sólin rís upp að nýju.
Þetta árlega alþjóðlega 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi má rekja aftur til ársins 1991. Dagsetning átaksins var valin til að tengja á táknrænan hátt kynbundið ofbeldi og mannréttindi. Þann 25. nóvember er alþjóðlegur baráttudagur gegn ofbeldi gegn konum og 10. desember er hinn alþjóðlegi mannréttindadagur. Markmið átaksins er að knýja á um afnám alls kynbundins ofbeldis. Dagarnir 16 þar á milli eru helgaðir baráttu gegn kynbundnu ofbeldi víða um heim fyrir tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna. Ofbeldi gegn konum er aldrei einkamál heldur samfélagslegt mein sem hefur áhrif á miljónir kvenna og barna þeirra um allan heim. Ofbeldi má gjarnan flokka í sex flokka, andlegt, líkamlegt, kynferðislegt, fjárhagslegt, stafrænt ofbeldi og það sem kallað er eltihrellar. Mikilvægt er að beina athyglinni að forvörnum, við þurfum öll að þekkja rauðu aðvörunarljósin til að geta brugðist við í tíma og einnig þekkja hvert við getum sótt okkur aðstoð.
Kæru Kópavogsbúar, Soroptimistaklúbbur Kópavogs tekur þátt í átakinu á ýmsan hátt, með fjáröflun til góðra verka, s.s. með sölu á síld og appelsínugulum blómum. Einnig með samstarfi við margar stofnanir bæjarins sem lýsa byggingar sínar upp í appelsínugulum lit til að vekja athygli á þessu átaki, t.d kirkjur bæjarins. Þá munu eflaust margir verða okkar Soropimista varir á almannafæri þar sem við verðum sýnilegar á almenningsstöðum að vekja athygli átakinu með dreifingu á fræðsluefni um kynbundið ofbeldi – stafrænt ofbeldi.
STAFRÆNT OFBELDI (CYBER VIOLENT) – ÞEKKTU RAUÐU LJÓSIN.
- DEILDU EKKI LYKILORÐUNUM ÞÍNUM MEÐ NEINUM
Geymdu lykilorðin á öruggum stað. Notaðu sterka og áreiðanlega lykilorðageymslu. - HUGSAÐU ÁÐUR EN ÞÚ „SMELLIR“
Með einum kæruleysislegum smelli getur þú óvart opinberað viðkvæmar upplýsingar. - GÆTTU AÐ ÞVÍ HVERJU ÞÚ HLEÐUR NIÐUR R
Reyndu að komast hjá því að hlaða niður öppum eða hugbúnaði sem líta grunsamlega út. Slíkt getur hleypt inn spilliforritum. - GÆTTU AÐ ÞVÍ HVERJU ÞÚ PÓSTAR MUNDU:
Það sem þú setur á netið er ekki auðvelt að afturkalla. - TILKYNNTU OFBELDI
Ef þú verður fyrir stafrænu ofbeldi skaltu tilkynna það til viðeigandi samfélagsmiðils og/eða opinberra aðila. - VERIÐ UPPLÝST, FRÆÐIÐ AÐRA
Vertu með á nótunum varðandi stafrænt ofbeldi og fræddu aðra um hvernig fyllsta öryggis er gætt á netinu. Deildu þessum ráðum með vinum, fjölskyldu og samfélaginu.
SOROPTIMISTAR SEGJA NEI VIÐ OFBELDI
Verkefnastjórar Soroptimistaklúbbs Kópavogs.