Þær Freydís Edda Reynisdóttir frá félagsmiðstöðinni Fönix, Katrín Ýr Erlingsdóttir frá félagsmiðstöðinni Ekkó og Marín Inga Schulin Jónsdóttir frá félagsmiðstöðinni Kúlunni fóru með sigur af hólmi í Söngkeppni félagsmiðstöðva í Kópavogi.
Þær munu keppa fyrir hönd Kópavogs í Söngkeppni Samfés sem haldin verður í Bíóhöllinni á Akranesi á morgun, sunnudag.
Söngkeppni félagsmiðstöðva í Kópavogi var haldin með öðru sniði í ár í ljósi aðstæðna Covid-19. Keppnin sem er árlegur viðburður félagsmiðstöðvanna var að þessu sinni streymt í öllum félagmiðstöðvunum á meðan keppendur stóðu á svið í Salnum.
Fulltrúar átta félagsmiðstöðva tóku þátt í keppninni sem var glæsileg, spennandi og öðruvísi en vanalega.
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri, Margrét Friðriksdóttir forseti bæjarstjórnar og Unnur María Agnarsdóttir formaður ungmennaráðs heiðruðu svo keppendur í Salnum og óskuðu þeim góðs gengis í komandi keppni.
Mynd frá vinstri: Ármann Kr. Ólafsson, Marín Inga Schulin Jónsdóttir, Katrín Ýr Erlingsdóttir, Freydís Edda Reynisdóttir, Unnur María Agnarsdóttir og Margrét Friðriksdóttir