Söng í konunglegu brúðkaupi í Svíþjóð og kemur nú fram með Diljá í Lindakirkju

Laugardaginn 20. maí verða haldnir gospeltónleikar í Lindakirkju, en þá fær kór Lindakirkju til liðs við sig frábæran sænskan söngvara, Samuel Ljungblahd sem hefur gert garðinn frægan í Evrópu og ferðast mikið um Skandinavíu og haldið tónleika. Hann hefur komið tvisvar sinnum áður til Íslands og sungið þá með Gospelkór Fíladelfíu og Gospelkompaníinu.

Þess má geta að Samuel söng lokalagið í konunglega brúðkaupinu í Svíþjóð 2015 sem m.a. var sýnt beint hérna á Íslandi, en þetta skiptið verður hann með tónleikana í Lindakirkju ásamt kór kirkjunnar og Kópavogsmærin og sönkonan, Diljá Pétursdóttir, mætir líka eftir eftir flottan flutning í Liverpool um sl. helgi og tekur lagið með kórnum sínum. Í hljómsveitinni spila 7 snillingar og allt undir stjórn Óskars Einarssonar. ,,Þetta verður mikið stuðprógram, tónlistin hress og skemmtileg og það má lofa stemmningu,” segir Óskar.

Kór Lindakirkju hefur fengið til liðs við sig frábæran sænskan söngvara, Samuel Ljungblahd sem hefur gert garðinn frægan í Evrópu og ferðast mikið um Skandinavíu og haldið tónleika

Á tóneikunum verða flutt að mestu lög eftir Samuel sem semur mjög flotta tónlist litaða af soul/funk/gospel stíl. ,,Samuel hefur sungið um alla Evrópu með stærstu og bestu gospelkórum ásamt því að koma fram í sjónvarpsþáttum í Skandianívu. Til stóð að fá Samuel til Íslands á síðasta ári en hann var svo mikið bókaður að aldrei gafst tími að fá hann hingað,” segir Óskar.

Og Diljá þarf vart að kynna fyrir Kópavogsbúum? ,,Nei, varla. Diljá er í Kór Lindakirkju og hefur verið viðráðin tónlistina í kirkjunni síðan hún var 14 ára. Hún hefur oft sungið einsöng með kórnum sem og haldið tónleika í Lindakirkju,” segir Óskar og bætir við: ,,Þetta verður fyrsta opinbera uppákoman hennar eftir Euro- vision ævintýrið í Liverpool og áhorfendur eiga aldeilis von á “sprengju” frá henni og kórnum,” segir hann brosandi.

Í hljómsveitinni spila ásamt Óskari þeir Páll Pálsson, Davíð Sigurgeirsson, Gulli Briem, Brynjólfur Snorrason, Pétur Erlendsson og Rafn Hlíðkvist Björgvinsson.

Og þegar Óskar er spurður nánar um kór Lindakirkju og verkefni hans þá stendur ekki á svörum. ,,Kórinn hefur verið á fullu í allan vetur og tekið þátt í fjölmörgum verkefnum eins og Superstar, tvennum The Greatest Showman tónleikum, tónleikum með Diljá, tvennum Jólatónleikum Lindakirkju, aðvenntukvöldi, Sveitamessu um jólin, tvennum Kántrýtónleikum í febrúar ásamt tónlistarfólki frá Texas,” segir hann og tekur fram að þetta sé allt í viðbót við söng í messum alla sunnudaga og fermingum. ,,Þetta eru síðustu tónleikarnir á þessum starfsvetri hjá kórnum og frábært að enda á þennan hátt með hressum gospeltónleikum,” segir hann fullur tilhlökkunar.

Miðasalan er á www.tix.is og sætin eru númeruð.

Forsíðumynd: Óskar og Dilja, sem mun stíga á svið í í Lindakirkju í fyrsta skiptið eftir Liverpool ævintýrið. Dilja er gallharður Kópavogsbúi og hefur sungið í Lindakirkju frá því hún var 14 ára.

Kór Lindakirkju undir stjórn Óskars

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar