Þekking í íslensku er forsenda góðs árangurs í grunnskóla. Niðurstöður liggja fyrir í prófi sem nýlega var lagt fyrir fjóra árganga nemenda með annað móðurmál en íslensku. Í skýrslu sem lögð var fyrir menntaráð kemur fram að próf af þessu tagi hafa verið lögð fyrir undanfarin 5 ár og ástandið hefur ekki batnað frá fyrri mælingum.
Niðurstöðu prófsins er skipt í þrjá flokka; grænan, gulan og rauðan. Til rauðs flokks teljast börn sem hafa slakan orðaforða í íslensku, lakari en nauðsynlegt er til að skilja það sem fram fer í skólanum og til þess að vinna verkefnin sem lögð eru fyrir. Því miður telst meirihluti nemenda í Kópavogi með íslensku sem annað mál, í allt 430 börn, vera á rauðu ljósi í íslensku. Í skýrslunni kemur fram að staðan lagast ekki með aldri nemenda og skólagöngu nemenda. Í 9. bekk falla yfir 70% nemenda í rauðan flokk. Tími grunnskólans til að bæta úr lakri stöðu íslenskuþekkingar elsta hópsins er því afar knappur.
Kennsla í íslensku fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku er vaxandi áskorun í grunnskólunum í Kópavogi eins og í mörgum öðrum sveitarfélögum. Fjöldi þeirra vex en getan til sinna þeim virðist ekki vaxa að sama skapi. Nú eru nemendur með annað móðurmál en íslensku fleiri en 700 í grunnskólum Kópavogs. Það jafngildir um 16% heildarfjölda nemenda.
Í skýrslunni segir að leggja verði meiri áherslu á íslenskukennslu. Ekki er tíundað í skýrslunni hvaða aðgerða hægt er að grípa til. Það liggur þó í loftinu að fjölga þurfi kennslustundum í íslensku fyrir þennan hóp og styrkja og efla tengslin við fjölskyldur nemenda svo þau fái nægjanlegan stuðning og aðstoð heima. Þekking og reynsla á þessum málum fer vaxandi. Frekari aðgerðir koma ekki til framkvæmda nema til þeirra sé veitt frekari fjármagi.
Staðan er algjörlega óásættanleg og það stefnir í í ógæfu ef ekki tekst að efla getu nemenda með annað móðurmál til að bæta tök sín á íslensku. Nemendurnir þurfa að skilja það sem fram fer í skólanum og geta unnið þau verkefni sem lögð eru fyrir þau. Að frumkvæði minnihlutans hefur menntaráð samþykkt tillögu um að efla beri íslenskukennslu í skólunum allverulega og til þess þurfi að auknar fjárveitingar. Fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn fylgja málinu eftir í umfjöllun um fjárhagsáætlun næsta árs og vonandi ber meirihlutinn gæfu til að styðja það.
Tryggvi Felixson, fulltrúi Vina Kópavogs í menntaráði