Sköpunargleðin ræður ríkjum í tónlistarsmiðju

Fjölskyldustundir á laugardögum hafa hafið göngu sína á nýjan leik en þar geta börn og fjölskyldur notið fjölbreytilegra listsmiðja og viðburða sem fram fara á víxl í Bókasöfnum Kópavogs, Náttúrufræðistofu, Gerðarsafni og Salnum í Kópavogi. Allar Fjölskyldustundir fara fram kl. 13 – 15 á laugardögum og er aðgangur ókeypis.

Laugardaginn 18.september verður boðið upp á tónlistar- og upptökusmiðju fyrir börn á aldrinum 8 – 14 ára í fjölnota rými Bókasafns Kópavogs við Hamraborg en smiðjan verður leidd af Alberti Finnbogasyni og Ásthildi Ákadóttur. Bæði hafa þau að baki fjölbreyttan bakgrunn í tónlist; Albert er einn af eftirsóttari hljóð- og upptökumönnum landsins sem hefur starfað með tónlistarfólki svo sem Gyðu Valtýsdóttur, Damien Rice, Sóleyju Stefánsdóttur og Víkingi Heiðari Ólafssyni og Ásthildur Ákadóttir hefur komið víða við sem píanóleikari, tónskáld og tónlistarkennari en hún stundar nú mastersnám við LHÍ, þess má einnig geta að hún var ein af Sumarspírum Menningarhúsanna í Kópavogi og leiddi vel heppnaðar og eftirsóttar smiðjur fyrir börn sumarið 2021.

Einfalt hljóðupptökuver í Bókasafni

„Hugmyndin er að útbúa vettvang fyrir krakka sem geta komið og gert tónlist með okkur“ segir Albert. „Við verðum með alls konar hljóðfæri á staðnum í bland við hljóðgervla og fleiri græjur; komum upp einföldu hljóðupptökuveri í fjölnota salnum á Bókasafninu og tökum upp það sem við erum búin að gera.“

„Okkur langar að velta fyrir okkur mismunandi leiðum að því hvernig hægt er að nálgast tónlistarsköpun“ segir Ásthildur, „stíga aðeins út fyrir rammann og prufa ólík hljóðfæri í tónsmíðum, hefðbundin og heimasmíðuð. Við semjum tónlistina saman, ræðum sem hópur hvað við viljum gera og hverju við stefnum að. Við ætlum kannski ekki að eyða of miklum tíma í hvert lag fyrir sig heldur leyfum við sköpunargleðinni að ráða ríkjum.“

Tónlistarbakgrunnur ekki nauðsynlegur

Þau Albert og Ásthildur hafa áður stýrt sambærilegri smiðju í Iðnó sem þau segja að hafi gengið mjög vel. „Krakkarnir nutu þess að spreyta sig á alls konar hljóðgjöfum og hljóðfærum og magnað að finna fyrir eldmóðinum hjá ungu kynslóðinni“ segir Ásthildur.

Ásthildur og Albert vonast til að sjá sem flest í Bókasafni Kópavogs laugardaginn 18. september og segja að bakgrunnur eða nám í tónlist sé alls ekki skilyrði. Þau benda á að samtíningur hljóðfæra verði á staðnum en svo sé öllum frjálst að grípa með sér hljóðfæri eða hljóðgjafa að heiman.

Fjölskyldustundir á laugardögum eru styrktar af Lista – og menningarráði Kópavogsbæjar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar