Skólagarðar á nýjum og flottum stað

Í sumar eins og undanfarna áratugi mun Kópavogsbær bjóða börnum á aldrinum 6 til 12 ára að rækta fallega grænmetisgarða.

,,Þetta árið verðum við eins og áður í Víðigrund í Fossvogi og við Dalveg. Hinsvegar verður skólagarða aðstaða okkar við Arnarnesveg í gjánni á milli Sala – og Kórahverfis því miður ekki í ár. Þessi í stað munum bjóða upp á nýja og glæsta aðstöðu fyrir skólagarða í Guðmundarlundi. Erum við mjög spennt að taka á móti krökkunum þar í fallegu náttúru umhverfi. Við erum þessa dagana að undirbúa jarðveginn fyrir grænmeti barnanna og annað sem þarf til að taka á móti ykkur á sem bestan hátt,“ segir Svavar Ólafur Pétursson, verkefnastjóri á umhverfissviði og Vinnuskóla Kópavogs.

Má þess geta að Kópavogsbær hefur nýverið lokið við að leggja glænýjan göngustíg áleiðis að Guðmundarlundi frá Boðaþingi og er hugmyndin meðal annars að auðvelda börnum að komast leiðar sinnar. ,,Einnig er þetta kjörið tækifæri fyrir börn og foreldra að koma í lundin, rækta grænmeti og eiga síðan frábæra tíma saman að leik í Guðmundarlundi,“ segir hann.

Eins og ávallt munu allir fá að velja sér sinn eigin reit og fá útvegað grænmeti jafnt frá Skólagörðunum til ræktunar. Garðarnir opna miðvikudaginn 5. júní á öllum stöðum og verður opið fyrstu vikurnar frá 12 til 18 og síðar í sumar frá 8 til 16. 

Skráning er á vefnum á slóðinni sumar.kopavogur.is

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar