Skemmtilegt og gefandi starf í Rótarý – Mæta á vikulega fundi í Borgum eldsnemma á fimmtudagsmorgnum

Rótarýklúbburinn Borgir, einn þriggja Rótarýklúbba í Kópavogi, fagnar 25 ára afmæli í aprílmánuði. Klúbburinn var stofnaður 13. apríl árið 2000 sem blandaður klúbbur. Félagar í upphafi voru 32, þar af 12 manns sem komu úr Rótarýklúbbi Kópavogs. Nú er 71 félagi í Borgum og tveir heiðursfélagar, konurnar eru heldur fleiri en karlarnir.

Haldnir hafa verið vel yfir þúsund fundir í klúbbnum frá stofnun hans og fundarsókn síðustu misseri yfirleitt verið um og yfir 60%. Klúbburinn heldur fundi í safnaðarheimilinu Borgum á fimmtudagsmorgnum og eru fyrstu fundargestir mættir í morgunverð fyrir klukkan hálfátta.

Á ferð um Borgarfjörð. Bjarki Sveinbjörnsson fremstur í flokki í heimsókn að Rauðsgili.

Fjölbreyttir fyrirlestrar

En hvað í ósköpunum rekur fólk á fætur fyrir alllar aldir til að fara á fund úti í bæ. Stutta svarið er að þetta er skemmtilegt og gefandi. Innlegg eru frá félögum á hverjum fundi og síðan kemur fyrirlesari með erindi og getur það verið af hinum ólíkustu sviðum þjóðlífsins; menningu, heilbrigðiskerfi, atvinnulífi, nefndu það. Félagar í klúbbnum eru ólíkir og með ólík áhugamál og speglast það í fjölbreytni fyrirlesara.

Við látum líka gott af okkur leiða og höfum tekið þátt í ýmsum uppbyggilegum verkefnum í Kópavogi á liðnum aldarfjórðungi. Við erum að sjálfsögðu meðvituð um að við erum hluti af Rotary International, þessum mikilvægu mannúðarsamtökum sem telja 1,2 milljónir félaga um heim allan.

Eitt helsta afrek Rótarý á heimsvísu er árangur í baráttunni við mænusótt/lömunarveiki. Að þessu verkefni hefur Rótarý unnið í samstarfi við Alþjóða heilbrigðisstofnunina og fleiri aðila. Af þeim skal fyrst nefna stofnun Bill og Melindu Gates, en fyrir hverja krónu sem Rótarýsjóðurinn leggur fram, þá leggja þau fram tvær krónur.  Þetta hefur verið gríðarlega mikilvægt í þessari baráttu.

Áfram Ísland Handboltinn átti hug fólks í janúar og Jón Péturssoin mætti í landsliðstreyju á klúbbfund í Borgum. Aðrir við borðið eru Guðmundur Jóelsson, Baldur Sæmundsson, Guðrún Eggertsdóttir og Sigurður Konráðsson.

Hagyrðingamót og afmæli

Í tilefni af 25 ára afmæli Rkl. Borga verður haldið afmælishóf í apríl og í lok mánaðar verður farið í Borgarleikhúsið til að heilsa upp á Ladda. Þá verður í byrjun mánaðarins bryddað upp á þeirri nýjung að halda hagyrðingamót og verða snjallir hagyrðingar og Rótarýfélagar á palli þessa morgunstund.

Stjórnandi verður Þórður Helgason, Borgum, og með honum bregða á leik þau Guðríður Helgadóttir, Borgum, Pétur Blöndal, Rkl. Reykjavík-Miðborg og Hjálmar Jónsson, Rótarýklúbbi Reykjavíkur. Án efa verður gaman að fylgjast með þessu einvalaliði.

Rótarýdagurinn verður haldinn þann 23. febrúar og markar dagurinn 120 ára afmæli Rótarýstarfs í heiminum, því fyrsti Rótarýfundurinn var haldinn að frumkvæði Paul Harris þennan dag árið 1905. Rótarý-hreyfingin hefur verið sterk á Íslandi í um 90 ár, en fyrsti rótarýklúbburinn hér á landi var stofnaður í Reykjavík 13. september árið 1934.

Nú eru nú 32 Rótarýklúbbar starfandi hér á landi og um 1.100 félagar eru skráðir í rótarýklúbba á Íslandi. Virðing, samkennd og vinátta einkennir starf innan Rótarý, starfið er fræðandi og síðast en ekki síst: Það er gaman í Rótarý og sannarlega er þar pláss fyrir öflugt fólk.

Ágúst Ingi Jónsson, forseti Rkl. Borga í Kópavogi

Forsíðumynd: Í skóginum stóð kofi einn. Félagar í Borgum bregða á leik á jólafundi klúbbsins í desember. Fremst frá vinstri eru Þórður Helgason, Þórhildur Helgadóttir, Ragnar Jóhannsson og Gunnar Stefánsson.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins